22.4.2015 18:00

Miðvikudagur 22. 04. 15

Í dag ræddi ég við Óttar Guðmundsson lækni í þætti mínum á ÍNN um nýja bók hans um Magnús Þór Jónsson, Megas, og dauðasyndirnar sjö. Bókin kom út á dögunum í tilefni af 70 ára afmæli Megasar og hefur hún mælst vel fyrir hjá bókakaupendum og gagnrýnendum. Þar er sagt frá ævi og listamannsferli umdeilds samtímamanns. Þáttinn má sjá kl. 20.00 í kvöld og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Síður en svo er ég stuðningsmaður Eds Milibands eða Verkamannaflokksins í Bretlandi en fari svo fram sem horfir sýnist hann verða næsti forsætisráðherra Breta með stuðningi skoskra þjóðernissinna. Traust í garð Milibands vex eftir því sem hann birtist fleirum í kosningabaráttunni – hann berst af hita og sannfæringu. David Cameron, forsætisráðherra Íhaldsflokksins, er sléttur og felldur og gætir sín á að segja lítið annað en hið fyrirsjáanlega. Litríkur persónuleiki er í námunda við Cameron innan flokksins, Boris Johnson, borgarstjóri í London, sem stefnir nú á þing að nýju.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor dregur upp skarpa og vel rökstudda mynd af því hve illa var haldið á eignum sem urðu næsta munaðarlausar eftir hrun bankanna. Seðlabanki Íslands gætti ekki hagsmuna sinna og þjóðarinnar sem skyldi vegna veðsins sem hann átti í FIH-bankanum í Danmörku. Veðið kom til sögunnar í hrunvikunni þegar menn vonuðu að bjarga mætti einum banka, Kaupþingi.

Það kom í hlut Más Guðmundssonar seðlabankastjóra að gæta hagsmuna seðlabankans þegar á reyndi vegna ráðstöfunar á FIH-banka. Fór það allt í handaskolum eins og Hannes Hólmsteinn lýsir. Hann nefnir tvö önnur dæmi um illa meðferð á eignum Íslendinga erlendis. Á Facebook-síðu sinni í dag segir Hannes Hólmsteinn:

„Tap samtals 270 milljarðar króna! En fjölmiðlar virðast flestir hafa lítinn áhuga á þessum stórmálum og eltast við einhvern tittlingaskít, sem þeir telja sig geta fundið um Illuga Gunnarsson og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Og netúlfarnir (Illugi, Egill, Guðmundur Andri) bæra ekki á sér, þótt þeir séu vanir að ýlfra af ánægju við minnsta keim af hneyksli.“

Má ég í vinsemd minna Hannes Hólmstein á að hann er ekki almannatengill, þeir eru helsta fréttalindin um þessar mundir.