30.4.2015 19:00

Fimmtudagur 30. 04. 15

„Ég vil biðja ykk­ur um að þrýsta á fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins að líta áfram á Ísland sem um­sókn­ar­ríki að sam­band­inu.“ Þetta er haft eft­ir Árna Páli Árna­syni, for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, á Twitter-síðu þing­flokks Jafnaðarmanna og demó­krata á ESB-þing­inu. Árni Páll er stadd­ur í heim­sókn hjá þing­flokkn­um og ávarpaði hann í gær (29. apríl), segir á mbl.is í dag, fimmtudaginn 30. apríl.

Hinn 12. mars 2015 sendi Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra bréf til ráðherraráðs ESB og tilkynnti að Ísland væri ekki lengur ESB-umsóknarríki og óskaði eftir að ESB tæki mið af því. Ed­gars Rin­kevics, ut­an­rík­is­ráðherra Lett­lands, núverandi forseti ráðherraráðs ESB, svaraði bréfinu 26. apríl 2015 og var greint frá efni svarsins hér á síðunni þann dag og að ráðherraráð ESB ætlaði að taka mið af ósk ríkisstjórnar Íslands. Á mbl.is segir fimmtudaginn 30. apríl:

„Til­gang­ur heim­sókn­ar Árna Páls til þing­flokks Jafnaðarmanna og demó­krata var að skrifa und­ir sam­starfs­samn­ing milli Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og þing­flokks­ins. Ekki síst á sviði Evr­ópu­mála. Haft er eft­ir Gi­anni Pittella, for­manni þing­flokks­ins, á Twitter-síðunni að þing­flokk­ur­inn styðji inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið. Haft er eft­ir Árna Páli að laga­lega séð séu dyrn­ar inn í sam­bandið ekki lokaðar land­inu. „Um leið og við sigr­um þing­kosn­ing­arn­ar hefj­um við inn­göngu­ferlið ... Við mun­um skipu­leggja þjóðar­at­kvæðagreiðslu um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið um leið og við kom­umst til valda.““

Það er fáheyrt að formaður stjórnmálaflokks gangi þannig gegn utanríkisstefnu eigin lands á erlendum vettvangi svo að ekki sé talað um bænarorðin um að erlendir þingmenn beiti áhrifum sínum til að stefna ríkisstjórnar Íslands nái ekki fram að ganga. Samfylkingin hefur vissulega lagst lágt í ESB-málinu en hér verður niðurlæging þó meiri en áður. Framkvæmdastjórn ESB er ekki annað en umsagnaraðili í samskiptum ráðherraráðsins við umsóknarríki. Ráðherraráðið hefur þegar svarað ríkisstjórn Íslands.

Árni Páll er fyrsti flutningsmaður tillögu stjórnarandstöðunnar á alþingi um að hinn 26. september 2015 greiði þjóðin atkvæði um að ESB-viðræðunum skuli haldið áfram. Árni Páll sá ekki ástæðu til að sækja þingfund þriðjudaginn 14. apríl þegar tillagan var til fyrri umræðu. Við ESB þingmenn gefur hann til kynna að hann ætli ekki að styðja tillöguna af því að hann vilji ekki atkvæðagreiðsluna fyrr en hann hafi sigrað í þingkosningum.

Fíflalátum Samfylkingarinnar vegna ESB eru engin takmörk sett.