23.4.2015 18:10

Fimmtudagur 23. 04. 15

Í gær sagði ég hér á síðunni að Ed Miliband hefði náð forystu fyrir Verkamannaflokkinn í kosningabaráttunni í Bretlandi vegna þess hve hart hann berðist og af mikilli sannfæringu fyrir að hann ætti að verða forsætisráðherra. Í dag les ég í breska vikuritinu The Spectator, stuðningsblaði Íhaldsflokksins, að þar á bæ hafi menn verulegar áhyggjur af því hve dauft sé yfir David Cameron, flokksformanni og forsætisráðherra. „He knows that even his closest allies are worried he may lose the election if he doesn't show more passion,“ segir í viðtali sem James Forsyth, stjórnmálaritstjóri blaðsins, og Fraser Nelson ritstjóri taka við Cameron.

Þeir spyrja Cameron hvers vegna svo margir, meira að segja ráðherrar í ríkisstjórn hans, telji að hann verði að sýna raunverulegan áhuga á að vinna. „Ég veit það ekki,“ svarar hann. „Það er eitthvað við mig – mér tekst alltaf að sýna rólega mýkt eða eitthvað slíkt.“ Þetta hljómar eins og andartaks sjálfskoðun, hann brosir hins vegar og setur sig að nýju í stellingar: „En sjáið, hvar var ég í gær? Ég fór í fimm kjördæmi, flutti fimm ræður, ég hætti ekki fyrr en löngu eftir að hinir flokksleiðtogarnir voru komnir heim til að æfa sig fyrir sjónvarpsviðtöl eða eitthvað slíkt. Ég var á ferðinni og einnig í dag. Sjáið dagskrána! Ég veit ekki hvað ég get gert meira.“

Íhaldsmenn hafa ekki mátt sín neins í Skotlandi frá því að Margaret Thatcher leiddi flokkinn fyrir aldarfjórðungi, þeir hafa reist fylgi sitt á stuðningi kjósenda í Englandi. Verkamannaflokkurinn hefur litið á Skotland sem traust vígi sitt en eftir sjálfstæðiskosningarnar þar 18. september 2014 hefur fjarað undan flokknum og nú er spáð að hann tapi þar 25 þingsætum til Skoska þjóðarflokksins (SNP) í kosningunum fimmtudaginn 7. maí, eftir aðeins tvær vikur. Þrátt fyrir þetta er líklegt að Ed Miliband verði næsti forsætisráðherra Breta vegna þess styrks sem Verkamannaflokkurinn sýnir í Englandi.

Íhaldsmenn eru ráðþrota andspænis tölum í könnunum sem bera þetta með sér og spjótin beinast að Cameron – hann sýni ekki af sér næga ákefð og baráttuvilja heldur treysti á að tölur um aukna hagsæld Bretlands fleyti honum áfram inn í Downing-stræti 10. Boðskapur Camerons er að í Bretlandi hafi orðið einstæð umskipti til hins betra og það sé engin tilviljun. Vilji þjóðin halda áfram á sömu braut verði hún að kjósa Íhaldsflokkinn. Þetta er rétt en nær ekki eyrum fólks.