15.4.2015 18:15

Miðvikudagur 15. 04. 15

Í dag ræddi ég við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Þeir sem hafa áhuga á að kynnast væntanlegum byggingum sjúkrahússins við Hringbraut ættu að horfa á þáttinn.

Þegar þetta er skrifað sýnir danska sjónvarpið gesti ganga til 75 ára afmælisveislu Margrétar II. Danadrottningar í Kristjánsborgarhöll. Danir eru sérfræðingar að sýna beint frá því þegar kóngafólk og annað fyrirfólk gengur til veislu og gestirnir kunna einnig að ganga fram hjá ljósmyndurum og blaðamönnum. Farið er orðum um ágæti gesta og klæðnað kvenna. Þarna gengu Ólafur Ragnar og Dorrit og auk þess íslensku sendiherrahjónin, Benedikt Jónsson og Aðalheiður Óskarsdóttir, og Örnólfur Thorsson forsetaritari.

Á bæjarstjórnarfundi á Akranesi síðdegis þriðjudaginn 14. apríl lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á Akranesi, Ingibjörg Valdimarsdóttir og Valgarður Lyngdal Jónsson, fram tillögu um „að ákvörðun um framhald [ESB-]aðildarviðræðna verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu“.

Tillagan var felld með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og óháðra. Þrír fulltrúar Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar greiddu hins vegar atkvæði með henni. Í framhaldi af þessu lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun um að ESB-málið væri á forræði alþingis og ríkisstjórnar og treystu bæjarfulltrúarnir alþingismönnum „til að leiða málið til lykta þannig að sem víðtækust sátt náist um það“.

Sama dag og þessi undarlega ESB-tillaga var snarlega afgreidd í bæjarstjórn Akraness efndu alþingismenn til umræðna í 10 klukkustundir um tillögu stjórnarandstöðunnar um sama efni. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður tillögu stjórnarandstöðunnar. Hann var hins vegar ekki í þingsalnum til að fylgja tillögunni úr hlaði og kom það í hlut Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG.

Að Katrín skyldi standa í þessum sporum er dæmigert fyrir niðurlægingu VG í ESB-málinu – flokkurinn segist andvígur aðild en gengur þeirra erinda sem ESB-aðildarsinnar krefjast til að tryggja sér völd og áhrif - fylgi vkið flokkinn minnkar hins vegar jafnt og þétt.