20.8.2004 0:00

Föstudagur, 20. 08. 04

Við lögðum að stað rétt fyrir 09.00 og tókum National Express rútu út á Stansted-flugvöll frá St. John’s Wood biðstöðinni – ferðin út á völlinn tók álíka langa tíma og daginn áður eða um einn tíma og tuttugu mínútur. Við vildum vera tímanlega en EasyJet-vélin til Ljubljana átti að fara klukkan 12.45. Það gekk vel að skrá okkur um borð. Stúlkan spurði, hvort við hefðum pakkað sjálf, jú, hvort nokkur hefði farið höndum um töskur okkar eftir það, nei, en síðan bætti ég við óspurður, að þær hefðu reyndar verið geymdar á flugvellinum um nóttina, þá sagði hún með nokkrum þjósti, að það væri hún, sem spyrði – henni kom þetta greinilega ekkert við samkvæmt hinu staðlaða öryggiskerfi, eða hún bar fullkomið traust til þeirra, sem sáu um töskugeymsluna á vellinum.

 

Eftir að hafa litið í bóka- og blaðabúðir í flugstöðinni fórum við með lestinni út að flughliðinu. Þar tókum við að heyra tilkynningar um seinkanir hjá EasyJet vegna bilunar í tölvukerfi vallarins, við heyrðum jafnframt, að Iceland Express-vélin fór á áætlun til Keflavíkur um hádegisbilið.

 

EasyJet hvatti fólk til að sitja við flughliðin, þrátt fyrir seinkanir og biðum við þar í tvo tíma, áður en tekið var til við að hleypa fólki í vélina okkar. Sigurður Halldórsson, sellóleikari, sem hafði verið rétt á eftir okkur í innritun, varð að bíða þar í tvo tíma, því að innrita þurfti alla með penna í stað þess að nota tölvur.

 

Eftir að út í vél var komið, tók við nýr vandi. Fyrst var sagt, að það vantaði tvo farþega og yrði að losa vélina við töskur þeirra, áður en haldið yrði af stað. Brátt birtust þó þrír nýir farþegar við fögnuð flugþjóna. Þá kom í ljós, að innritunarfólkið sagði einum farþega fleira í vélinni en bókaðir höfðu verið. Sá talningarvandi leystist á einhvern óútskýranlegan hátt að sögn flugstjórans. Klukkan var orðin 15.45 þegar lagt var af stað eða þremur tímum eftir áætlun. Flugstjórinn sagði, að því miður væri þetta ekki í fyrsta sinn sem tölvukerfi vallarins gerði þeim lífið leitt, sem um hann færu.

 

Klukkan 18.25 að slóvenskum tíma lentum við Ljubljana, völlurinn er lítill og flugstöðin í samræmi við hann, svo að við þurftum hvorki að bíða lengi eftir töskunum eða að fá afgreiddan bílinn, sem við tókum á leigu en rúmlega 19.30 – fyrir myrkur, vorum við komin á hótelið í miðborginni.

 

Eftir að við höfðum snætt kvöldverð var eins og himnarnir rifnuðu með þrumum og eldingum og göturnar breyttust í ár og læki fyrir framan hótelgluggann