23.8.2004 0:00

Þriðjudagur, 23. 08. 04.

Héldum af stað í áttina að Nova Gorica, sem ber þetta nafn Nova, af því að Ítalir fengu til sín borgina Gorizia eftir síðari heimsstyrjöldina, reistu þá Slóvenar nýja borg sín megin við nýju landamærin. Til að komast þangað frá Karnjska Gora er unnt að aka eftir fjalladölum Ítalíumegin við landamærin eða yfir hæsta fjallaskarð Slóveníu 1611 metra og fórum  við þá leið.

 

Eftir nokkurra klukkustunda fjallaferðalag og viðdvöl í fjallabæjum og gömlu virki ókum við inn í Nova Gorica og vissum ekki fyrr en við vorum komin að landamærastöð – þar höfðu verðir aldrei séð íslenskt vegabréf áður og veltu fyrir sér, hvort Ísland væri í Schengen.  Þarna og aftur þegar við fórum inn í Slóveníu frá Gorizia voru allir látnir sýna skilríki og sumar stöðvar á landamærunum voru aðeins fyrir gangandi vegfarendur, en alls staðar voru landamæraverðir, þótt Ítalía og Slóvenía séu í Schengen.

 

Við fórum í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Nova Gorica og spurðum um þriggja stjörnu hótel í bænum eða nágrenni hans, þau voru tvö bæði utan Nova Gorica og völdum við hótel í smábænum Sempeter, var þar vel á móti okkur tekið og sneri herbergi okkar út að kirkjutorginu. Þetta var eina herbergið í ferðinni með loftkælingu og var hverjum gesti afhent fjarstýring við komu sína til að stjórna kælitækinu.