Sunnudagur, 07. 03. 10
Tæplega 63% kosningabærra nýttu sér rétt sinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave 6. mars. 93,18% sögðu nei og 1,7% sögðu já við staðfestingu laganna. 229.977 voru á kjörskrá, 144.231 kusu. 2.599 sögðu já 134.397 sögðu nei. 6.744 seðlar voru auðir en 491 atkvæði ógilt.
Jóhanna og Steingrímur J. segja, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar komi sér ekki á óvart. Hún hlýtur þó að vera reiðarslag fyrir þau. Þjóðin hafnar á afgerandi hátt máli, sem ríkisstjórnin hefur haft efst á dagskrá sinni frá því í júní 2009.
Steingrímur J. var síðan kominn í „étt'ann sjálfur“ gírinn í Silfri Egils í dag og hótaði Bjarna Benediktssyni með væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Spurt var af þessu tilefni á vefsíðunni www.amx.is, hvort rannsóknarnefndin hefði lekið upplýsingum til ríkisstjórnarinnar. Þess er ekki að vænta, að nefndarmenn bregðist við slíkri athugasemd.
Hitt er þó líklegast, að Steingrímur J. hafi ætlað þagga niður í gagnrýni á ríkisstjórnina og nauðsyn þess, að hún hverfi með þessum hræðsluáróðri. án þess að hann hafi hugmynd um, hvað í skýrslunni segir. Innantómur áróður af þessu tagi hefur einkennt málflutning Steingríms J. í Icesave-málinu í tæpt ár, eða frá því að hann boðaði hina „glæsilegu niðurstöðu“ af samningastarfi Svavars Gestssonar.
Í kvöld var myndin Draumalandið sýnd í sjónvarpinu. Hún var brotakennd eins og bókin og ekki sannfærandi.