19.3.2010

Föstudagur, 19. 03. 10.

Viðræður mínar við menn hér í Brussel í dag, hafa enn betur sannfært mig um nauðsyn þess, að tafarlaust sé mótuð ný Evrópustefna af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ekki verður lengra haldið á þeirri braut, sem mótuð var fyrir ári. Hún ber það eitt í sér, að þjóðin hafnar aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að hundruð milljóna króna hefur verið varið í það, sem réttilega má kalla „bjölluat“ undir forystu Samfylkingarinnar.

Á meðan aðildarbröltið er enn á dagskrá, er látið undir höfuð leggjast að meta stöðu krónunnar af raunsæi, því að enn er sú gulrót notuð af aðildarsinnum, að aðeins með aðild sé unnt að skipta um gjaldmiðli, vilji menn það. Þetta leiðir til þess að krónan heldur lífi til þess eins að deyja, nái stefna ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Er þetta æskilegasta staðan fyrir krónuna? Þarf ekki að hugsa málið dýpra og móta skýra stefnu í málefnum krónunnar, án þess að aðild að ESB sé sett sem markmið? Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi.

Brýnt er, að á vettvangi Sjálfstæðisflokksins komi menn sér saman um stefnu i þessu efni, sem taki mið af því, að meirihluti flokksmanna er andvígur aðild að ESB.

Það er ekki aðeins kostnaður og umrót í stjórnsýslu, sem veldur því, að skynsamlegt er að endurmeta stöðuna gagnvart ESB og stöðva aðildarferlið. Mjög hefur reynt á traust og trúverðugleika íslenskra stjórnvalda vegna bankahrunsins. Ríkisstjórnin varð gerð áhrifalaus í Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Starfshættir hennar eru undir smásjá erlendra aðila og þeir sjá sem er, að ríkisstjórnin er klofin í ESB-málinu. Haldi hún áfram á markaðri ESB-braut sinni verður það enn til að minnka traust til íslenska stjórnkerfisins.