1.3.2010

Mánudagur, 01. 03. 10.

Mánaðarleg könnun Capacent Gallup fyrir RÚV sýnir vinstri-græna stærri (25%) en Samfylkinguna (23,2%). Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur (32%) og Framsóknarflokkurinn (14%) minnstur fjórflokkanna. Aðrir, Borgarahreyfing, frjálslyndir og Hreyfing skipta með sér 5%.

Eftir að hafa kynnst viðkvæmni Samfylkingarinnar fyrir niðurstöðum skoðanakannanna, kemur ekki á óvart, að vaxandi taugaveiklunar gæti innan flokksins.

Í gær kynntu Bændasamtök Íslands niðurstöðu könnunar, sem sýndi, að meirihluti þjóðarinnar treystir Samfylkingunni ekki fyrir forystu gagnvart Evrópusambandinu. Nú sýnir könnun, að sá flokkur ríkisstjórnarinnar, sem er andvígur ESB-aðild, þótt hann hafi samþykkt að stíga fyrsta skrefið til hennar, er orðinn stærri en ESB-aðildarflokkurinn.

Í dag stendur Jóhanna Sigurðardóttir í þinginu og svarar spurningu frá Bjarna Benediktssyni um þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars út í hött og með spurningum um til hvers sé verið að greiða atkvæði, eins og lögin, sem eru tilefni þess, séu ekki enn í gildi. Spunaliðar Samfylkingarinnar í röðum fréttamanna RÚV eru teknir til við að spinna þennan Jóhönnu-ráð, þegar könnun sýnir, að 74% segjast ætla að segja nei við lögunum en aðeins 19% að styðja þau. Markmiðið er greinilega að fá sem fæsta til að gera sér ferð á kjörstað.

Ráðleysi ríkisstjórnarinnar er af þeirri stærðargráðu, að engu er líkara, en pólitískir fréttamenn nái ekki upp í það, nema þeir vilji ekki lýsa fyrir almenningi, hve stjórnarflokkarnir eru heillum horfnir við landstjórnina.