10.3.2010

Miðvikudagur 10. 03. 10.

Í dag var jarðarför Þorsteins Geirssonar, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, gerð frá Dómkirkjunni. Séra Hjálmar Jónsson jarðsöng, ég var einn líkmanna og ritaði minningargrein um Þorstein í Morgunblaðið.

Klukkan 17.30 var ég í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, þar sem nýliði, pólsk, var tekin í regluna við fjölmenna og hátíðlega athöfn. Í skrá um athöfnina segir um lok hennar:

„Nýliðinn leggst flöt á gólfið og príorinna stráir á hana blómum...Prestur stökkvir vígðu vatni á nýtliðann, sem síðan stendur á fætur og kyssir guðslíkamahúsið. Þá setur priorinna blómsveig á höfuð henni, síðan gengur hún að rimlunum. Prestur mælir síðan: Héðan í frá munt þú heita systir [hún tók sér nafnið Sara]. Að svo búnu óska prestar og gestir nýliða til hamingju.“

Í kvöld kl. 21.30 er þáttur minn á ÍNN á dagskrá. Gestur minn að þessu sinni er Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Við ræðum stöðuna í stjórnmálum að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú er reynt að slá ryki í augu almennings með tali um, að einhverju breyti, að Ögmundur Jónasson setjist aftur í ríkisstjórn. Ekki leysir það Icesave-málið?

Á mbl.is 10 mars má lesa:

„Aðspurður segir Ögmundur að væri honum boðið sæti í ríkisstjórninni, kæmi það vel til greina að þiggja slíkt boð - eins og það hafi raunar alltaf gert - en „á þeim forsendum sem allir þekkja.““

Já, á þeim forsendum sem allir þekkja. Þessi orð er ekki unnt að túlka á annan veg en þann, að Ögmundur líti á sig sem sjálfstæðan samningsaðila um stefnu ríkisstjórnarinnar. Það þurfi því að gera nýjan stjórnarsáttmála á hans forsendum, svo að hann fari aftur inn í ríkisstjórn. Í þættinum veltum við Ólöf fyrir okkur, hvaða forsendur þetta eru hjá Ögmundi.