Fimmtudagur, 18. 03. 10.
Var í morgun á fundi í NATO hér í Brussel. Ræddi síðdegis við sérfróðan mann um innri málefni Evrópusambandsins. Niðurstaða mín eftir þann fund er, að íslensk stjórnvöld eigi að setja aðildarumsóknina á ís, eins og Svisslendingar gerðu á sínum tíma. Alltaf er unnt að endurvekja málið síðar.
Leiðtogaráð ESB-ríkjanna finnur leiðir til að komast hjá því að taka afstöðu til álits framkvæmdastjórnar ESB, þar til Bretar og Hollendingar telja viðunandi niðurstöðu fengna í Icesave-málum. Nú er sagt, að þýskir þingmenn vilji lengri frest. Næst verður einhver önnur afsökun fyrir frestun.
Stöðvi íslensk stjórnvöld ekki aðildarferlið, malar ESB-aðildarvélin áfram og hún leikur sér að Íslendingum eins og köttur að mús vegna hinnar veiku íslensku samningsstöðu. Hrapallegur misskilningur er, að þjóðir í efnahagsvanda séu í bestri stöðu til að semja um ESB-aðild.