15.3.2010

Mánudagur, 15. 03. 10.

Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, ritar leiðara í blaðið í dag um nauðsyn þess að tryggja lögregluyfirvöldum heimild til forvirkra rannsókna, það er rannsókna, án þess að grunur liggi fyrir um, að afbrot hafi verið framið. Með þessu tekur ritstjórinn undir orð Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, í tilefni af umræðum um mansal og skipulagða glæpastarfsemi.

Við, sem höfum fylgst með skrifum um lögreglumál í Fréttablaðið, sjáum, að með þessum leiðara tekur blaðið u-beygju. Um árabil var ég harðlega gagnrýndur af blaðinu fyrir að leggja áherslu á greiningarstarf og samþættar aðgerðir innan lögreglunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Taldi blaðið áherslu mína í þessu efni til marks um áhugaleysi mitt á þeim lögreglustörfum, sem bæri helst að sinna að mati blaðsins, það er að gæta öryggis í miðborg Reykjavíkur, þegar drykkjulæti væru þar mest um helgar.

Hinn nýi ritstjóri Fréttablaðsins er sannfærður um gildi starfs greiningardeildar lögreglunnar við að upplýsa skipulagða glæpastarfsemi en mansal er ekki unnt að stunda nema sem lið í slíkri starfsemi. Fælingarmáttur byggist á því að samþætta starf fjölmargra aðila á sviði löggæslu, félagsmála og fjármála. Hinn 30. desember 2009 samþykkti alþingi breytingar á almennum hegningarlögum, sem ég lagði upphaflega fram á sínum tíma og fjölga úrræðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Án þess að gera lítið úr áhuga á því að uppræta mansal, tel ég mestu skipta að veita lögreglu sem haldbestar almennar heimildir og mest öryggi til að sinna verkefnum sínum við nýjar og hættulegri aðstæður en áður. Í því ljósi ber að líta á óskir um forvirkar rannsóknaheimildir. Til þessa hafa þingmenn vinstri-grænna og Samfylkingar farið í baklás, þegar um slíkar heimildir er rætt. Hið sama gilti um Fréttablaðið, þar til í dag.