5.3.2010

Föstudagur, 05. 03. 10.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, oddvitar ríkisstjórnarinnar, gera sem minnst úr gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þar sannast enn, að þau eru ekki í takt við hagsmuni þjóðarinnar og vinna frekar gegn þeim en með, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði.

Engum blöðum er um þá staðreynd að fletta, að þjóðaratkvæðagreiðslan og niðurstaða hennar skiptir máli gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum. Með því að gera lítið úr henni eða sýna beina óvild, eins og Jóhanna og Steingrímur J. gera, draga þau úr gildi hennar gagnvart Bretum og Hollendingum. Sannast enn, hve ömurlega þau hafa haldið á málum gagnvart hagsmunum þjóðar sinnar.

Steingrímur J. lét á þann veg í Kastljósi kvöldsins, að bréf til hans um, að Bretar og Hollendingar ætli að ræða áfram við Íslendinga, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, væri stórfrétt. Þetta er ekki annað en liður í blekkingu ráðherrans. Ríkisstjórnir Breta og Holllendinga geta ekki leyst þetta mál nema með samningi, þær vita, að réttarstaða þeirra leyfir ekki sókn málsins fyrir dómstólum.