Þriðjudagur, 16. 03. 10.
Umræður urðu á alþingi í dag um breytingar á skipulagi lögreglunnar og hvers af henni ætti að krefjast. Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, ítrekaði þá skoðun, að stækka ætti umdæmin utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja og skilja að störf sýslumanna og lögreglustjórn. Þessi áform hafa verið á döfinni síðan sumarið 2008.
Nú er næstum ár liðið, án þess að niðurstaða hafi fengist í kjaraviðræðum ríkisins og lögreglumanna. Þvermóðskan í garð lögreglumanna af hálfu fjármálaráðuneytisins undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar verður ekki skýrð á annan hátt en sem óvild af pólitískum rótum. Vinstri-grænir hafa verið með horn í síðu lögreglunnar. Þeir vilja veg hennar sem minnstan. Ekki er unnt að staðfesta það betur en með því að ljúka ekki kjaraviðræðum og stuðla að því að lögregla grípi til þess óyndisúrræðis að minna á sig með því að fjölmenna fyrir framan hjá ríkissáttasemjara eða á palla alþingis. Verða þær aðgerðir lögreglumanna notaðar sem skálkaskjól aðgerðarsinna síðar meir.
Geti ríkissáttasemjari ekki mótað miðlunartillögu í viðræðum ríkisins og lögreglumanna, hlýtur að þurfa að leita til annars þriðja aðila, til dæmis gerðardóms. Núverandi ástand í kjaramálum lögreglumanna er með öllu óviðunandi.