Laugardagur, 06. 03. 10.
Fyrstu tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave sýna, að um 93,1% sögðu nei, en 1,6% já. Steingrími J. Sigfússyni þótti merkilegt, hvað margir hefðu sagt já, þegar rætt var við hann í sjónvarpi. Ekki hefði hann mælt með því! Önnur svör hans voru álíka mikið út í hött og þetta. Hann fór ekki á kjörstað frekar en Jóhanna Sigurðardóttir.
Bæði töluðu þau eins og ekkert hefði í skorist fyrir ríkisstjórnina. Hún barðist þó bæði á sumarþingi og á haustþingi fyrir því af öllu sínu afli, að Icesave-frumvörp yrðu að lögum. Nú hefur þeim verið hafnað á eftirminnilegan hátt. Þá segja Jóhanna og Steingrímur J., að nú þurfi að bretta upp ermar og leysa Icesave-málið. Þau ætli sér sko að gera það.
Hvorugt þeirra fór á kjörstað, þótt þau hafi sífellt verið með það á vörunum í stjórnarandstöðu, að bera þyrfti hitt eða þetta málið undir atkvæði þjóðarinnar. Nú ætla þau að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þau láta eins og niðurstaðan breyti engu fyrir ríkisstjórnina.
Jóhanna Sigurðardóttir viðurkennir ekki pólitískar staðreyndir, af því að hún neitar að horfast í augu við þær. Henni er einnig um megn að skýra stöðu sína og ríkisstjórnar sinnar með haldgóðum rökum gagnvart íslensku þjóðinni og umheiminum eftir þessi úrslit. Hún vinnur hagsmunum þjóðarinnar áfram ógagn.
Steingrímur J. minnir nú orðið dálítið á Jóhannes í Bónus, þegar hann barmar sér. Hvor lýsir því á sinn hátt, hve mikið hann hefur lagt á sig fyrir þjóðina. Hvorugum finnst þeir metnir að verðleikum. Steingrímur J. fór enn með þá rullu í sjónvarpinu í kvöld, að hann ynni dag og nótt að því að bæta hag þjóðarinnar og nú mætti ekki láta deigan síga.
Eitt meginverkefni Steingríms J. hefur verið að vinna að lausn Icesave-málsins með vini sínum Svavari Gestssyni. Eftir úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar er auðskiljanlegt, að Steingrímur J. telji verk sín ekki metin að verðleikum. Jóhannes í Bónus brást við á svipaðan hátt, þegar 80% aðspurðra töldu best, að honum yrði haldið til hlés.