20.3.2010

Laugardagur, 20. 03. 10.

Flaug heim frá Brussel í dag um Kaupmannahöfn. Lagt af stað 09.55 frá Brussel, lent í Keflavík um 15.30. Icelandair ætlar að hefja beint flug til Brussel í júní. Flugstöðvarbyggingin þar er frekar óskemmtileg vegna hinna miklu vegalengda innan hennar.

Í gær lýsti ég þeirri skoðun hér á síðunni, skynsamlegt væri að setja aðildarumsóknina að ESB á ís, enda væri hún augljóslega andvana fædd vegna skorts á pólitískum stuðningi við hana. Evrópusamtökin, heimatrúboð aðildarsinna, taka þessu illa og einnig hinu, að finna eigi málamiðlun í gjaldmiðilsmálum til að skapa víðtæka sátt um samskipti okkar við ESB. Á vefsíðu sinni segja Evrópusamtökin í tilefni af orðum mínum:

„En sem betur fer eru til aðrir flokksmenn innan Sjálfstæðisflokksins sem líta með ,,víðsýnni“ gleraugum.  Björn er hinsvegar, það við hér á ES-blogginu leyfum okkur að kalla ,,kalda-stríðs-spekúlant,“ og þeir sjá heiminn gjarnan í svart-hvítu, góðu og slæmu og svo framvegis.“

Nú eru 20 ár liðin frá lyktum kalda stríðsins. ES-bloggarar eru ekki hugmyndaríkari en svo, að þeir vilja gera lítið úr skoðunum mínum með því að kenna mig við viðhorf, sem þá voru uppi. Satt að segja má efast um, að margir skilji hvað felst í því að vera „kalda-stríðs-spekúlant“, að minnsta kosti geri ég það ekki. Þegar ég nefni nauðsyn málamiðlunar í ESB-málum gefa ES-bloggarar til kynna, að ég sjái heiminn í svart-hvítu.

Rétt er að taka fram, að Evrópusamtökin hafa á stefnuskrá sinni að stuðla að málefnalegum umræðum um Evrópumál. Þegar þeirra eigin boðskapur er lesinn, þarf engan að undra, að þau hafi ekki erindi sem erfiði.