8.3.2010

Mánudagur, 08. 03. 10.

Umræðan um, hvort þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið um ríkisstjórnina eða ekki, er til marks um ógöngur stjórnmálaumræðna. Kosið var um lög, sem ríkisstjórnin barðist mánuðum saman fyrir, að yrðu samþykkt á alþingi. Hún þurfti meira að segja að taka slaginn um lögin tvisvar til að lokaniðurstaða fengist í þeim anda, sem dygði ríkisstjórnum Bretlands og Hollands. Stjórnarandstaðan sætti þungum árásum fyrir að draga umræður um málið á langinn. Fjármálaráðherra lét sem um líf og dauða efnahagskerfisins væri að ræða. Annað hvort yrði frumvarp hans að lögum eða eitthvað hræðilegt myndi gerast.

Vandræði ríkisstjórnarinnar mögnuðust, eftir að seinni lög hennar komu til sögunnar. Fjármálaráðherra sá ekki við Ólafi Ragnari á ríkisráðsfundi 31. desember og lét hann komast upp með að taka lögin óafgreidd af dagskrá fundarins. Þar sýndi forsætisráðherra einnig dæmalaust þekkingar- eða dómgreindarleysi. Þrátt fyrir málafylgju á þingi og handjárn á nógu marga stjórnarþingmenn til að knýja fram samþykkt frumvarpsins, höfðu ráðherrar ekki dug í sér til að fylgja máli sínu eftir sem lögum utan þings. Ekki er undarlegt, þótt fjármálaráðherra segi nú, að hann hafi hugsað um afsögn í ársbyrjun.

Stjórnarandstaðan rétti ríkisstjórninni hjálparhönd með þjóðarhagsmuni að leiðarljósi, eftir að Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir lögin. Í tvo mánuði hafði ríkisstjórnin forystu um að móta leið til að losna út úr ógöngum sínum, án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi. Hún naut til þess hlutleysis eða beins stuðnings stjórnarandstöðunnar. Allt kom fyrir ekki. Ríkisstjórnin réð ekki við málið. Hún réð ekki einu sinni við að afnema eigin lög, þótt ráðherrar teldu þau úr sögunni. Þjóðin gerði það hins vegar með eftirminnilegum hætti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra sátu heima. 

Atkvæðagreiðslan var um lög, sem endurspegluðu stefnu ríkisstjórnarinnar. 98% þeirra 63% þjóðarinnar, sem tók afstöðu, var á móti lögunum. Að sjálfsögðu fól atkvæðagreiðslan í sér mat á störfum og stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún snerist hins vegar ekki um, hvort ríkisstjórnin skyldi sitja áfram. Ákvörðun um það er undir þingmönnum ríkisstjórnarinnar komið, enda er borin von til þess, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skilji það, sem kjósendur skrifuðu á vegginn með atkvæði sínu. Hvergi í heiminum mundi lýðræðissinnaður forsætisráðherra, sem fengi slíkt spark frá borgurum lands síns, segja eins og hún, að nú væri bara að „þétta raðirnar“ og halda áfram á sömu óheillabraut.