25.3.2010

Fimmtudagur, 25. 03. 10.

Ók austan úr Fljótshlíð í veðurblíðu. Töluverð umferð var inn hlíðina, enda áhugi á því að skoða gosið mikill og lögregla hefur opnað leiðir.

Klukkan 17.00 var ég á útvarpi Sögu og tók þar þátt í umræðum um Evrópumál í þætti, sem þeir Egill Jóhannsson og Andrés Jónsson stjórna. Þarna var einnig Ólafur Arnarson, hagfræðingur. Við Egill erum andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) en þeir Andrés og Ólafur telja, að það eigi að láta á það reyna, hvort unnt sé að ná svo hagstæðum samningi við sambandið, að þeir myndu samþykkja hann í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér má hlusta á þáttinn.

Mér þykir einsýnt, að skynsamlegast sé fyrir ríkisstjórn Jóhönnu að kalla ESB-umsókn sína til baka, áður en hún skaðar álit lands og þjóðar meira en orðið er.  Málsvarar aðildar virðast enn halda í það sjónarmið, að okkur sé hún nauðsynleg til að geta losnað við krónuna og fengið skjól undir handarjaðri Seðlabanka Evrópu.

Ég minnti á, að fyrir bankahrunið hefðu einkum fjármálajöfrar krafist nýrrar myntar, hin íslenska væri of lítil fyrir þá. Nú væru áhrif þeirra engin og þörfin fyrir nýja mynt jafnframt horfin með þeim rökum, sem þeir beittu. Fjármálakerfið hefði hrunið. Nú ættum við allt undir útflutningi. Að láta eins og ekkert hefði í skorist og halda áfram að tala illa um krónuna, eins og áður hefði verið gert, væri fráleitt.