11.3.2010

Fimmtudagur, 11. 03. 10.

Í kvöldfréttum RÚV var sagt, að alþingi kæmi saman í kvöld til að samþykkja „bráðabirgðalög“ um bann við verkfalli flugumferðarstjóra. Þetta er rangt. Alþingi samþykkir lög, bráðabirgðalög eru sett af ráðherra, þegar alþingi er ekki að störfum. Þessi notkun fréttamanna á orðinu „bráðabirgðalög“ er álíka röng og þegar þeir tala um, að í stað ríkisstjórnarinnar komi „starfsstjórn“ til að ljúka brýnum málum.  Orðið starfsstjórn á við um ríkisstjórn, sem hefur beðist lausnar en er falið að sitja, þar til ný stjórn hefur verið mynduð. 

Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins (ESB), sat fyrir svörum á Evrópusambandsþinginu 8. mars. Samkvæmt útskrift af því, sem hann sagði, talaði hann í tæpar fjórar mínútur um Ísland. Ég staldraði við tvennt, þegar ég las útskriftina, hve almenn lýsing Füle var á væntanlegum áhrifum Íslands innan ESB. Hann minntist í því sambandi ekki einu orði á það, sem hér er oft mest hampað, að Íslendingar verði ráðandi við mótun sjávarútvegsstefnu ESB, enda vita allir í Brussel, að svo verður ekki. Athyglisvert er, að hann gerir þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands, að hún taki upp markvissa baráttu fyrir ESB-aðild. Eins og allir vita leggur ríkisstjórnin málið þannig fyrir á heimamarkaði, að hún sé að kanna, hvað sé í ESB-pokanum. Síðan ætli hún að athuga næsta skref. Málum er alls ekki þannig háttað frá sjónarhóli ráðamanna í Brussel. Þeir telja ríkisstjórnina í liði með sér við að koma Íslandi í ESB. Þeir skilja einfaldlega ekki, að ríkisstjórn, sem sótt hefur um aðild, hafi ekki burði til eða berjast fyrir henni á heimavelli.

Þegar Füle ræddi framlag Íslands til ESB-samstarfsins sagði hann, að Ísland væri lítið land, sem þegar væri vel tengt inn á innri markaðinn og þess vegna teldi hann, að aðild Íslands hefði takmörkuð heildaráhrif á stefnu ESB. Aðild landsins yrði hins vegar ESB gagnleg á marga lund. Með aðild sinni mundi Ísland styrkja hlutverk ESB í baráttu fyrir mannréttindum og lýðræði á heimsvísu. Vegna strategískrar hnattstöðu sinnar mundi Íslands sem ESB-aðildarríki styrkja strategíska stöðu ESB á Norður-Atlantshafi. Íslendingar byggju einnig yfir talsverðri reynslu og þekkingu á tækni til að nýta endurnýjanlega orkugjafa, til að vernda umhverfið og bregðast við loftslagsbreytingum; vegna umhyggju sinnar fyrir loftslaginu gætu Íslendingar lagt verulegan skerf af mörkum við mótun og framkvæmd stefnu ESB.

Þegar vikið var að því, að stuðningur við ESB-aðild virtist ekki mikill á Íslandi sagði Füle:

„Ég mun ganga úr skugga um, að starfsbræður okkar á Íslandi átti sig á því, að eftir lyktir þjóðaraatkvæðagreiðslumálsins [Icesave] væntum við þess af þeim, að þeir leggi sig fram um að auka stuðning við ESB-aðild, hið sama á við borgara landa okkar og ESB-löndin og stuðning þeirra við aðild Íslands.“