Föstudagur, 26. 03. 10
Hér er hægt að sjá nýjasta þátt minn á ÍNN, viðtal við Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Ók inn eftir Fljótshlíðinni (fram eftir segðu menn í Skagafirði) síðdegis í dag. Ég fór ekki yfir á Einhyrningsflatir, sneri við, áður en kom að vöðunum þangað. Í sjálfu sér sást ekki mikið af gosinu, þótt auðvitað væri það nær en utar í hlíðinni. Umferðin var töluverð og hún jókst, þegar dimmdi. Í allt kvöld hefur verið stöðugur straumur bíla inn og út hlíðina.
Eldurinn blasir við úr eldhúsglugganum hjá mér. Hann minnir á teikningar úr bókum frá fyrri öldum og sannar, að þeir, sem þær gerðu, urðu vitni að slíkum náttúruhamförum. Klukkan 22.30 les ég á mbl.is:
„Gríðarlega mikil umferð er nú um Fljótshlíðina og raunar Suðurlandsveginn allt frá Reykjavík. Hjón sem voru á leið inn Fljótshlíð í kvöld mættu 300 bílum á leið út úr Fljótshlíðinni, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Til stóð að loka veginum við Fljótsdal í austur nú á 11. tímanum í kvöld.“
Fljótsdalur er innsti bærinn í Fljótshlíðinni. Þaðan aka menn yfir óbrúaðar ár í austur. Þegar ég var þarna á ferð í dag, var mér einmitt á orði við ferðafélaga mína, að ég vildi ekki aka á þessum þröngu vegum í náttmyrkri.