31.3.2010

Miðvikudagur, 31. 03. 10.

Þegar við vorum í Róm í febrúar voru auglýsingar vegna héraðskosninganna víða. Í Rómarhéraði, Lazio, sáust til dæmis víða risastórarmyndir af Emmu Bonino, sem bauð sig þar fram til héraðsstjóra gegn frambjóðanda  Slivios Berlusconis, forsætisráðherra. Emma Bonino hefur gegnt ráðherraembættum á Ítalíu og auk þess setið í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Henni tókst ekki að halda héraðsstjórn Lazio í höndum vinstri manna í kosningunum um síðustu helgi.

Úrslitin eru sigur  flokks Berlusconis og samstarfsflokks hans, Norðurbandalagsins, sem sýndi mikinn styrk. Norðurbandalagið jók fylgi sitt úr 8% Í síðustu þingkosningum í 13% og náði undirtökunum í tveimur norðurhéruðum landsins. Umberto Bossi, foringi Norðurbandalagsins, segist ætla að berjast fyrir auknu fjárhagslegu sjálfstæði þessara héraða, Piedmont og Veneto.

Í þeim 13 héruðum, þar sem kosið var, vann flokkur Berlusconis í sex, bætti við sig fjórum á kostnað vinstri flokkanna. Tveimur vikum fyrir kjördag höfðu kannanir sýnt, að vinstri menn gætu vænst góðs sigurs. Í stað þess sitja þeir eftir með sárt enni.

Athygli vekur, að Berlusconi kemur mun sterkari frá héraðskosningum en Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti. Flokkur hans fékk illa útreið í héraðskosningum í Frakklandi fyrir 10 dögum.

Talið er, að sigurinn verði til að herða baráttu Berlusconis gegn dómurum og saksóknurum, sem hafa í 16 ár leitast við að koma lögum yfir hann vegna meintra afbrota. Almenningur á Ítalíu þykir styðja þá skoðun Berlusconis, að réttarkerfinu sé beitt gegn honum af pólitískum andstæðingum hans.