3.3.2010

Miðvikudagur, 03. 03. 10.

Á mbl.is birtist í kvöld klukkan 19.17:

„Fundi samninganefndar Íslands í Icesave-málinu með Bretum og Hollendingum er lokið. Eins og er eru ekki fleiri fundir fyrirhugaðir í kvöld, segir Guðmundur Árnason, einn þeirra sem situr í samninganefndinni. Hann segist ekkert geta sagt um útkomu fundarins.“

 Jóhanna og Steingrímur J. eru hætt að tala um, að ekki verði gengið verði til atkvæðagreiðslu 6. mars. Nú er afsökun vinstri-grænna sú, þegar bent er á, að stefni í ódýrari Icesave-samninga, að „töfin“ hafi nú kostað sitt. Þetta er í besta falli hallærislegt sjónarmið, sem byggist á veikri viðleitni til að réttlæta hina hörmulegu Steingríms J.-Svavarssamninga.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, segir í spjalli við Sölva Tryggvason á Skjá einum í kvöld: „Ríkisstjórnin hlýtur að skoða stöðu sínu,“ þegar hún var spurð, hvað gerðist, þegar þjóðin hefði hafnað Icesave-lögunum. Í orðunum fólst, að ríkisstjórninni hefði mistekist að leysa Icesave-málið. Hefði hún enga leið út úr því, ætti hún ekki margra kosta völ.

Firring Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu eins og í öllum öðrum málum segir, að hún muni ekki viðurkenna, að ríkisstjórn hennar sé komin í þrot.  Jóhanna yfirgefur ekki stól forsætisráðherra, nema hennar eigin þingflokkur rísi gegn henni, eða vinstri-grænir splundrist og stjórnin missi meirihluta sinn.

Klukkan 14.30 vorum við Gunnar Eyjólfsson og Ingibjörg Friðbertsdóttir frá Aflinum, félagi qi gong iðkenda, í Vogum á Vatnsleysisströnd og kynntum qi gong fyrir stjórnendum heilsuleikskóla.