23.3.2010

Þriðjudagur, 23. 03. 10.

Að deila um veiðar á skötusel skuli leiða til þess, að Samtök atvinnulífsins (SA) fái nóg af samstarfi við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur undir merkjum stöðugleikasáttmálans svonefnda, sýnir betur en flest annað, hve mjög ríkisstjórnin er heillum horfin.

Jóhanna hreytir ónotum í SA og segir ríkisstjórnina geta farið sínu fram, þrátt fyrir mótmæli úr þeirri átt. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir, að ríkisstjórnin hafi brotið gegn því, sem segir í sáttmálanum með skötuselslögunum. Jóhanna segist ekki sjá neitt minnst á skötusel í stöðugleikasáttmálanum.

Steingrímur J. lét í hádeginu, eins og sér tækist að leiða menn saman að nýju með samtölum. Ekkert virðist að marka þau orð frekar en svo margt annað, sem Steingrímur J. lætur flakka í fjölmiðlum, án þess að fylgst sé með því, hvort hann standi við orð sín.

Meirihluti lögbundinnar nefndar, sem er kjörin af alþingi, hefur samþykkt að Magma Energy geti eignast hluta í HS Orku. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segist bundinn af ákvörðun nefndarinnar. Hann hefur tilkynnt Magma Energy, að kaupin séu heimil.

Unnur G. Kristjánsdóttir, samfylkingarkona af Suðurnesjum, formaður nefndarinnar, sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld og segir, að ráðherra sé bundinn af áliti nefndar um erlenda fjárfestingu ef nefndin hafni fjárfestingunni. Ekki komi sérstaklega fram í lögunum hvort það sama eigi við þegar nefndin samþykki fjárfestinguna.

Silja Bára Ómarsdóttir, háskólakennari, situr í nefndinni fyrir vinstri-græna og var í minnihluta. Ætla vinstri-grænir að láta hér við sitja? Verður þetta að enn einu ágreiningsefni stjórnarsinna?

Athyglisvert er, að í þessari rimmu stjórnarflokkanna tekur fréttastofa RÚV afstöðu með vinstri-grænum, eins og sést af þessu orðalagi á vefsíðunni ruv.is: „Í tuttugu ár hefur verið til þingskipuð nefnd sem á að meta hvort lögunum er fylgt. Henni var falið að meta Magma Energy gæti sniðgengið vilja löggjafans og skotið sér bakdyrameginn inn í orkugeirann með því að stofna skúffufyrirtæki í Svíþjóð. “ (Feitletrun Bj. Bj.)