Laugardagur, 27. 03. 10.
Veður var frekar kalt í Fljótshlíðinni vegna norðanáttar í í 2ja stiga frosti og bjartviðri. Umferðin var mikil um hlíðarveginn, jókst hún eftir því sem á daginn leið. Í ljósaskiptunum sáust ljós uppi á Mýrdalsjökli í austri og þar virtist stöðugur straumur snjósleða fyrir austan gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi.
Þyrlur og flugvélar eru á sveimi. Þyrla landhelgisgæslunnar flaug lágt í austurátt fyrir stundu, þegar hún sneri aftur, lenti hún í skamma stund á túninu fyrir vestan Hellishóla.
Nágrannar mínir í Fljótshlíðinni fyrir neðan veg voru vaktir með símhringingu og sms-boðum laugardagskvöldið fyrir viku, þegar gosið hófst. Þar sem ég er í hlíðinni fyrir ofan veg, var ekki haft samband við mig, enda ekki hætta á flóði hér. Öllum þótti sjálfsagt að fara að fyrirmælum viðbragðsaðila og láta skrá sig í miðstöðvum þeirra. Eftir á að hyggja velta þeir fyrir sér, hvort nauðsynlegt hafi verið að loka vegum í Fljótshlíðina og banna þeim að snúa til síns heima fyrr en morguninn eftir.
Strax og viðvörunin barst, taldi fólkið, að með því að kveikja á RÚV fengi það upplýsingar um, hvað væri að gerast. Svo var ekki, engar fréttir voru á RÚV, fyrr en nokkru síðar. Jók þögn RÚV á óvissu og ef til vill ótta hjá sumum.