Þriðjudagur, 09. 03. 10.
Sumir málsvarar aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) eru þeirrar skoðunar, að best sé að hlaupa undir Brusselvaldið, þar sem Íslendingar séu ekki færir um að stjórna eigin málum á líðandi stundu. Nú hefur helsti álitsgjafinn í Brussel um málefni ESB hvatt til þess, að leiðtogaráð ESB-ríkjanna stöðvi aðildarferli Íslands, þar sem íslensk stjórnvöld hafi ekki nægilegt vald á málinu. Aðild sé dæmd til að falla í þjóðaratkvæðagreiðslu, vegna þess hve illa hefur verið staðið að umsókninni hér á landi undir stjórn Samfylkingarinnar. Ég birti pistil um málið hér á síðunni í dag.
Hér hefur hver spekingurinn étið eftir öðrum, hve fráleitt var af Sjálfstæðisflokknum að óska eftir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka af skarið um ESB-stefnuna. Nú blasir við, að til að tryggja góðan undirbúning hefði þetta verið skynsamlegri leið en að kasta hundruð milljóna ef ekki mörgum milljörðum á glæ í vonlaust aðildarferli.
Andróðurinn gegn hinni tvöföldu leið Sjálfstæðisflokksins var byggður á jafnhaldlitlum grunni og kvakið nú um, að hér sé ekkert unnt að gera í endurreisn atvinnulífs, skuldauppgjöri heimila eða endurreisn banka vegna Icesave-deilunnar. Hún er skálkaskjól duglausra ráðherra, sem geta hvorki leyst deiluna né tekist á við önnur viðfangsefni. Undarlegt er að heyra fólk, sem vill láta taka mark á sér í opinberum umræðum, endurtaka rolluna um Icesave til afsökunar fyrir dugleysi ráðherranna.