24.3.2010

Miðvikudagur, 24. 03. 10.

Í kvöld var sjónvarpað viðtali mínu við Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, á ÍNN . Ragnar er afdráttarlaus í skoðunum og telur ríkisstjórnina ekki fara rétta leið við stjórn efnahagsmála. Hann áréttaði skoðanir, sem birtast í grein hans í nýjasta hefti Þjóðmála.

Ók austur í Fljótshlíð í fögru veðri. Bólstrar austan við Eyjafjallajökul voru til marks um gosið á Fimmvörðuhálsi. Meiri umferð var á Fljótshlíðarveginum en venjulega og mikið um að vera á Hvolsvelli.

Klukkan 20.00 vorum við Bjarni Harðarson, bóksali, í Víkurskála í Vík í Mýrdal, þar sem Heimssýn boðaði til fundar um Evrópumál. Umræður voru góðar og málefnalegar í um tvær klukkustundir.

Á leiðinni úr Vík brann rauður loginn fyrir ofan Skóga og var það tignarleg mynd af gosinu, sem blasti við á Sólheimasandi. Annað sjónarhorn var, þegar ekið var austur Fljótshlíð frá Hvolsvelli. Þá sáust einnig hraunspýjur þeytast í loft upp. Er mun glæsilegra að sjá gosið í náttmyrkri en dagsbirtu.

Við heimkomu sá ég endursýningu á Kastljósi, þar sem rætt var um rýmingu hjá nágranna mínum á Hellishólum aðfaranótt sunnudags, þegar gosið hófst. Fjölmenni er oft mikið á Hellishólum um helgar, einkum á sumrin, þar eru tugir ef ekki hundruð húsbíla auk annarrar aðstöðu til gistingar. Að þessu sinni þurfti að rýma staðinn á laugardagskvöldi, þegar margir voru á barnum. Umræðurnar í Katljósinu snerust um, að drukkinn maður hafði ekið af stað og endað ferð sína á brúarstólpa á Kvoslækjaránni. Spurningarnar lutu að því, að í viðbragðsáætlun vegna rýmingar hefði ekki verið tekið nægilegt tillit til ástands þeirra, sem ekki voru ökufærir. Fram kom, að ráðstafanir hefðu þó verið gerðar vegna þeirra, en boð um það ekki borist. Eftir atvikið hefði verið farið yfir öll atriði í þessu efni og hér eftir ættu viðbrögð að vera markvissari. Af efnistökum í Kastljósinu mátti ráða, að af þess hálfu hefði verið leitað að einhverju gagnrýnisverðu við störf björgunarsveita og lögreglu vegna rýmingar og þetta atvik hafi komið upp í hendur stjórnenda þess. Ég velti fyrir mér, hvort málið stæði undir umfjölluninni.