30.3.2010

Þriðjudagur, 30. 03. 10.

Skrifaði pistil hér á síðuna, þar sem ég túlka ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á þann veg, að ríkisstjórnin sé komin að fótum fram og eigi að segja af sér.

Ég tók eftir því að mbl.is birti frétt um pistilinn. Þar geta bloggarar gert athugasemdir. Upphrópanir og skítkast í minn garð er þess eðlis, að ég fagna því enn og aftur að hafa aldrei hleypt slíku efni inn á síðu mína. Skyldi fólk trúa því, að það sé málstað þess til framdráttar að öskra og æpa að þeim, sem það er ósammála?

Við gerð fjárlaga 2009 ákvað ríkisstjórn og alþingi að skera niður tillögu mína um fjárveitingar til nýs fangelsis. Ég sé ekki betur en nú sé verið að dusta rykið af þeim tillögum og ætlunin sá að afla fjár til að hrinda þeim í framkvæmd. Vonandi tekst það.