Sunnudagur, 28. 03. 10.
Ein af ánum mínum bar tveimur lömbum í dag. Hún kom ekki af fjalli í leitunum en fannst nokkru eftir áramót og fór í hús hjá nágranna mínum. Í morgun, pálmasunnudag, komu tvö lítil lömb í heiminn. Ærin er ljónstygg, því að hún hefur varla komið í hús áður. Ég keypti hana í Fljótsdal, innsta bænum í Fljótshlíðinni, sem hefur verið í fréttum í tengslum við gosið. Hefur hún kunnað best við sig í fjalllendinu þar í nágrenninu síðan.
Umferðin var mikil bæði að austan og austur í dag. Stöðugur straumur bíla var eftir Fljótshlíðarveginum en þeir, sem halda upp á Fimmvörðuháls aka hins vegar austur með Eyjafjöllum að Skógum.