29.3.2010

Mánudagur, 29. 03. 10.

Ráðherrar frá fimm ríkjum, sem eiga land að Norður-Íshafi, Bandaríkjunum, Kanada, Danmörku (f.h. Grænlands), Noregi og Rússlandi hittust á þriggja tíma fundi í Ottawa í dag til að ræða málefni norðurskautsins. Reuters-fréttastofan sagði frá fundinum með þessari fyrirsögn

Clinton rebuke overshadows Canada's Arctic meeting

Fyrirsögnin vísar til þess, að Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi skammað Lawrence Cannon, utanríkisráðherra Kanada, fyrir að boða ráðherra frá aðeins fimm af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins til fundarins, það er skilja Finna, Íslendinga og Svía út undan. Þá fann Hillary einnig að því, að ekki skyldi neinn fulltrúi frumbyggja á norðurhjara sitja fundinn.
 
Hillary hvarf af fundarstað, án þess að taka þátt í sameiginlegum blaðamannafundi. Þar létu blaðamenn spurningar dynja á Cannon um fjarveru Hillarys og hvers vegna hann hefði staðið að fundinum á þennan ámælisverða hátt. Cannon sagði, að með fundinum hefði ekki verið ætlunin að vega að Norðurskautsráðinu. Hann ætti ekki að koma í stað þess.
 
Þetta er í annað sinn, sem slíkur fimm-ríkja fundur er haldinn. Danir boðuðu til hins fyrsta á Grænlandi fyrir nokkrum árum. Að þessu sinni sendu Danir dómsmálaráðherra sinn á fundinn en ekki utanríkisráðherra.
 
Þegar til Ottawa-fundarins var boðað, mótmælti Össur Skarphéðinsson fyrir Íslands hönd. Sama dag og Hillary gengur til mótmæla í þágu Íslands af fundinum í Ottawa, kallar Össur forstöðumann sendiráðs Bandaríkjanna í Reykjavík í utanríkisráðuneytið til að láta skamma hann fyrir leka á trúnaðarskjölum úr bandaríska utanríkisráðuneytinu um Ísland og íslenska ráðherra.
 
Í frétt ruv.is um skjölin í Washington segir meðal annars:
 

 

„Í skjölunum er skapgerðareinkennum og stefnumálum Össurar og Jóhönnu Sigurðardóttur lýst og þar kemur fram að Össur muni líklega ekki koma Íslandi inn í ESB vegna andstöðu VG. Össur sagði í samtali við fréttastofu RÚV að honum þætti það óviðeigandi að stofnanir erlendra ríkja héldu trúnaðarskýrslur um stjórnmálaleiðtoga í öðrum löndum, ekki síst ef þær lækju síðan til fjölmiðla. Hann kallar eftir skýringum.“

Saga alþjóðastjórnmála geymir svo margar frásagnir um, að innan stjórnkerfa landa séu til skýrslur, þar sem lagt er mat á viðmælendur í öðrum löndum, að furðu sætir, ef Össur hafi ekki áttað sig á því fyrr en núna, að slíkar upplýsingar lægju í skjalasöfnum utanríkisráðuneyta víða um lönd. Að slíkum upplýsingum sé lekið eða þær leki til fjölmiðla er ekki nýtt. Rúmt ár er til dæmis liðið frá því, að skýrslu um fund Ólafs Ragnars með sendimönnum erlendra ríkja í Reykjavík var lekið í norsk blöð.