17.10.2014 22:20

Föstudagur 17. 10. 14

Björn Karlsson, dósent við umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands, sagði í fyrirlestri við upphaf björgunarráðstefnu Landsbjargar, Björgun 2014, í dag, Íslendingar hefðu „eiginlega varla nokkurn einasta möguleika á því bjarga“ mörg hundruð manneskjum eða jafnvel þúsund, til dæmis skemmtiferðaskipi einhvers staðar við Grænlandstrendur.

Þetta eru ekki ný sannindi heldur lýsing á vanda sem leitar- og björgunarstofnanir allra ríkja við Norður-Atlantshaf hafa rætt um árabil. Að því er Grænland varðar hefur danska flotastjórnin lengi hugað að leiðum til að takast á við slys af þeim toga sem Björn Karlsson nefnir. Ein tillagan er að aldrei verði eitt skemmtiferðaskip á ferð við Grænland heldur tiltölulega skammt á milli tveggja skipa. Með því mætti auka öryggi beggja.

Hinn 19. september 2013 flutti Knud Bartels, hershöfðingi, formaður hermálanefndar NATO og fyrrverandi yfirmaður danska hersins, flutti erindi um stöðu NATO og framtíðarverkefni í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni.,

Hann sagðist sem fyrrverandi yfirmaður danska hersins fylgjast náið með framvindu mála á norðurslóðum og ástæðulaust væri að ætla annað en hún yrði áfram friðsamleg. Hann vék að auknum ferðum risaskipa með ferðamenn um þessar slóðir og mátti skilja á orðum hans að þar kynni að vera hætta á ferðum ef dæma mætti af því sem gerðist í skemmtaferðaskipum annars staðar á heimshöfunum. Hann sagði að yrði sjóslys nþar sem skemmtiferðaskip kæmi við sögu yrði óhjákvæmilegt að kalla á alla til hjálpar þar á meðal herskipeða flugvélar á vegum herafla.

Spurning er hvort sviðsmyndin sem lýst var í fyrirlestri Björns Karlssonar eigi ekki við um öll skemmtiferðaskip sem sigla í nágrenni Íslands. Sagt er að þau verði 100 á næsta ári.

Hið furðulega er hve lítil umræða hefur verið um þessa hlið siglinga stórskipa í nágrenni Íslands.

Þessi þróun öll mælir með að alþjóðleg stjórnstöð leitar- og björgunar verði starfrækt hér á landi og reglulega verði efnt til samhæfingaræfinga.