18.10.2014 23:55

Laugardagur 18. 10. 14

Frumsýningin á Don Carlo hjá Íslensku óperunni í Eldborg Hörpu í kvöld var glæsileg. Uppfærsla Þórhildar Þorleifsdóttur var trú sögunni og tímanum, engin tilraun til að færa dramað inn í samtímann, átökin eru tímalaus hvort heldur þau snúast um ást, grimmd, stjórnmál eða trúarbrögð. Af sýningum Íslensku óperunnar í Eldborg er þessi ef til vill hin best heppnaða.

Fyrir nokkrum árum sá ég Don Carlo í Bastillu-óperunni í París og þar var Kristinn Sigmundsson í hlutverki yfirdómara rannsóknarréttarins en í kvöld var hann Filippus II. Spánarkonungur. Mér þótti sagan betur sögð í kvöld en í París, bæði var nálægðin meiri auk þess sem íslensku textarnir auðvelduðu skilning á efninu.

Einvala lið söngvara flutti verkið á dramatískan hátt og hver einasta rödd var íslensk, sumar hafa ekki heyrst áður í sýningum Íslensku óperunnar. Sannaðist þar enn breiddin í hæfileikaríkum hópi íslenskra söngvara.

Hljómsveit íslensku óperunnar lék mjög vel undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, var gott jafnvægi milli hennar og söngvaranna. Leikmynd og lýsing báru þess merki að hönnuðir Íslensku óperunnar ná sífellt betri tökum á hinum glæsilega tónleikasal, nú féll litur sviðsmyndarinnar að lit salarins.

Stefán Baldursson óperustjóri tók áhættu með flutningi á Don Carlo. Frumsýningin sýnir að hún var réttmæt og vonandi nýta sér sem flestir þetta einstæða tækifæri til að kynnast einu af meistaraverkum óperusögunnar.

 

Verdi samdi óperuna að hvatningu Parísaróperunnar og var hún frumsýnd þar árið 1867. Er ekki að efa að það hefur glatt Frakka hve ljúflega og lofsamlega er sungið um Frakkland sem björtustu vonina andspænis harðstjórn Filippusar.