23.10.2014 22:50

Fimmtudagur 23. 10. 14

Unnt er að reyna á innviði þjóðríkja á ýmsan hátt.

Þung rök hníga að því að Huang Nubo hafi fengið leyfi kínverskra stjórnvalda til að láta á það reyna hve langt hann kæmist með ósk um að eignast 300 ferkílómetra land Grímsstaða á Fjöllum. Þegar ríkisvaldið sagði nei reyndi hann að vefja sveitarstjórnum á norðausturlandi um fingur sér. Þau stofnuðu hlutafélagið GáF til að þjóna Huang og situr það nú uppi með 10 milljóna króna skuld en Huang hefur fest sér 100 ha land skammt frá Tromsö í Noregi þótt kaupin séu ekki formlega um garð gengin.

Kínverjum hefur tekist að kortleggja ýmislegt um innviði íslenska stjórnkerfisins og átta sig betur en áður á hvar helst sé að leita stuðnings við óskir þeirra.

Skömmu eftir að vinstri stjórn tók við völdum í Svíþjóð bárust fréttir um að rússneskur kafbátur væri á sveimi í sænskri lögsögu úti fyrir Stokkhólmi. Hans hefur nú verið leitað án árangurs í eina viku. Hvort sem kafbátur hefur verið eða er þarna á ferð eða ekki hefur Rússum tekist að kalla fram viðbrögð sænskra stjórnvalda sem sýnir styrk þeirra og veikleika.

Einhver lak frétt í DV um að nýjar byssur hefðu verið kynntar til sögunnar hjá ríkislögreglustjóra. Upphaflega fréttin var röng og reist á getgátum. Að íslenska lögreglan hafi aðgang að vopnum er ekki nýtt. Miðað við fjölda lögreglumanna eru vopnin líklega hlutfallslega færri nú en nokkru sinni fyrr. Að sjálfsögðu á að stuðla að því að lögreglan ráði yfir sem bestum tækjabúnaði og geti notað hann innan lögmætra marka.

Framvinda umræðnanna um þetta vopnamál leiðir í ljós fávisku margra fjölmiðla- og þingmanna auk algjörs skilningsleysis á hlutverki og ábyrgð þeirra sem láta að sér kveða í umræðum um öryggismál. Þá kemur einnig í ljós, eins og vitað var, að innan stjórnsýslunnar er grátt svæði þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þar sem annars vegar eiga í hlut stofnanir á vegum innanríkisráðuneytisins og hins vegar utanríkisráðuneytið sem fer með varnarmál og hefur samskipti við stjórnvöld annarra ríkja á því sviði.

Var tilgangur þess sem lak fréttinni í DV að draga fram þennan veikleika innan stjórnsýslunnar eða að leggja stein í götu þess að lögreglumenn hefðu aðgang að viðunandi vopnum? Skyldi einhver kæra þennan leka til ríkissaksóknara?