12.10.2014 21:40

Sunnudagur 12. 10. 14

Frá því er sagt á ruv.is að kvöldi sunnudags 12. október að  ISNIC hafi lokað léni samtakanna Íslamskt ríki. Um fordæmalausa aðgerð sé að ræða þar sem ISNIC hafi aldrei fyrr lokað léni vegna innihalds vefjar.

Erla Árnadóttir hæstaréttarlögmaður, sérfróð um hugverkarétt, telur ekki augljóst að efni síðunnar falli undir íslenska refsilösögu, henni virðist efni á síðunni „ekki vera beint sérstaklega til íslenskra þegna“ og ekki sé „að finna þar neitt efni sem er á íslensku“. Erla segir einnig hæpið að yrðu sett lög um bann við vistun slíks efnis undir .is yrðu þau afturvirk „þar sem slíkt gæti jafngilt eignarnámi“

Hér er tilkynning ISNIC:

 „ISNIC hefur lokað lénum sem notuð voru fyrir aðalvefsíðu yfirlýstra hryðjuverkasamtaka. Meirihluti stjórnar ákvað þetta nú síðdegis. Ákvörðunin er reist á grundvelli 2. tl. 9. gr. reglna ISNIC um lénaskráningu, þar sem fram kemur að rétthafa léns beri að ábyrgjast að notkun léns sé í samræmi við íslensk lög. Lénunum var lokað kl. 18:40, en nokkrir klukkutímar kunna að líða þar til vefir undir lénunum verða óaðgengilegir um allan heim. Um fordæmalausa aðgerð er að ræða, þar sem ISNIC hefur aldrei fyrr lokað léni vegna innihalds vefjar.“

Afstaða Erlu Árnadóttur kemur á óvart. Það þarf nokkurt hugmyndaflug til að segja að huga beri að þeim atriðum sem hún nefnir og láta þau ráða um nethernað og þess vegna samrýmist íslenskum lögum að stríðsmenn íslamska ríkisins noti íslenskt yfirráðasvæði til hernaðar – efninu sé ekki beint til Íslendinga og sé ekki á íslensku!

Hefði ekki verið lokað fyrir þessa síðu á íslensku léni hefði legið ljóst fyrir að netvarnir Íslands væru einfaldlega í molum.