27.10.2014 21:10

Mánudaginn 27. 10. 14

Hér var laugardaginn 25. október sagt frá samkomulagi Ögmundar Jónassonar, þáv. innanríkisráðherra,  og Jóns Gnarrs, þáv. borgarstjóra, dags. 19. apríl 2013 varðandi Vatnsmýrina og Reykjavíkurflugvöll. Samkomulagið var undirritað „með fyrirvara um samþykki borgarráðs“, og gert meðan þáverandi formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, var staddur erlendis. Skjalið var aldrei kynnt borgarráði, og þaðan af síður samþykkt af því. Það er því með öllu gildislaust.

Þessari staðreynd hefur ekki mikið verið hampað enda ríkir sérkennileg pólitísk samtrygging um flugvallarmálið á vettvangi borgarstjórnar. Er ekki vafi á því að Sjálfstæðisflokknum hefði vegnað mun betur í borgarstjórnarkosningunum vorið 2014 hefði hann haft dug í sér til að taka af skarið gegn meðferð Jóns Gnarrs og félaga á flugvallarmálinu.

Nú er látið eins og nefnd undir formennsku Rögnu Árnadóttur sem á að benda á framtíðarflugvallarstæði í eða við Reykjavík hafi eitthvað um það að segja hvort grafið verði undan Reykjavíkurflugvelli með því að leggja af norðaust­ur/​suðvest­ur flug­braut­ina. Þessi flugbraut fellur ekkert undir verksvið nefndarinnar.

Önnur nefnd, áhættumatsnefnd, skoðar gildi brautarinnar fyrir völlinn. Séð hefur verið til þess af yfirvöldum að nefndin fundar ekki. Þá er sagt að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fullyrt að það verði ekki niðurstaða áhættumatsins að öryggi vallarins skerðist. Dagur B. situr í nefnd Rögnu Árnadóttur. Er það þess vegna sem látið er eins og sú nefnd hafi eitthvað um þessa flugbraut að segja?

Furðulegt er að ISAVIA hafi enga skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Engu er líkara en þessi rekstraraðili flugvalla í landinu sé aðeins áhorfandi að því þegar vegið er að öryggi Reykjavíkurflugvallar. Nærtæk skýring er að Þórólfur Árnason, fyrrv. borgarstjóri, var stjórnarformaður ISAVIA í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þórólfur hefur sem borgarstjóri tekið þátt í hinni laumulegu aðför að Reykjavíkurflugvelli, hann er nú forstjóri Samgöngustofu sem er yfirfrakki ISAVIA.

Það sem af er þessari öld, 21. öldinni, hefur hópur fólks leynt og ljóst unnið að því að grafa undan tilvist Reykjavíkurflugvallar. Þessi iðja er illa þokkuð af meirihluta þjóðarinnar og þess vegna er reynt að ná markmiðum hennar með pólitískum leikbrögðum á borð við samkomulagið sem Ögmundur og Jón Gnarr rituðu undir 19. apríl 2013. Nú er nafn virðulegs og vinsæls íþróttafélags notað í von um að það auki vinsældir málstaðarins.