13.10.2014 20:15

Mánudagur 13. 10. 14

Í pistli á Eyjunni segir í dag:

„Robert Fisk, pistlahöfundur hjá The Independent og einn virtasti blaðamaðurinn um málefni Miðausturlanda, telur að í þessari umræðu [um Íslamska ríkið] verði að gefa því sem fer fram á netinu meiri gaum. Vefsíður, blogg og YouTube hafi í hugum margra tekið yfir hlutverk raunveruleikans. Hann veltir meðal annars fyrir sér hvort IS séu ekki raunverulegri á netinu en í hinu áþreifanlega lífi á jörðu niðri. Þetta eigi að sjálfsögðu ekki við um Kúrdana í Kobani eða Yazidis fólkið eða þá sem hafa verið afhöfðaðir af liðsmönnum IS.  Hann veltir fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að við áttum okkur á þeirri staðreynd netfíkn í pólitík og stríð sé jafnvel hættulegri en hörð fíkniefni.“

Eðlilegt er að hafa skoðanir sem þessar í huga þegar litið er til þeirrar ákvörðunar að loka á fulltrúa IS (Islamic State) þegar þeir ætla að nota lénið .is – íslenska lénið í netheimum. Eins og hér hefur verið sagt áður er háð stríð í netheimi samhliða átökum í Sýrlandi og Írak. Ísland var dregið inn í það stríð og varnirnar eru í íslenskum höndum.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata, segir á FB-síðu sinni 12. október að sér hefði þótt viðundandi að ISNIC hefði lokað á síðu IS með vísan til þess að Íslamska ríkið ætlaði að eigna sér lénið .is til þess hafi hins vegar skort heimild og því hafi ekki átt að loka á síðuna af því að almenningur verði „að hafa rétt og færi á því að rannsaka og ræða opinskátt ljótustu hugmyndirnar sem finnast í mannlegu samfélagi, sérstaklega þegar um er að ræða hrylling á borð við Ríki Islams“.

Þetta er skrýtileg og þversagnarkennd afstaða sem Helgi Hrafn rökstyður meðal annars á þennan hátt:

„Allt tal um að þessari síðu verði að loka vegna þess að hún breiði út hatur er í grundvallaratriðum byggt á þeirri skelfilegu hugmynd að hluti verksviðs yfirvalda sé að hafa hemil á því hvað almenningur hugsi og hvað honum finnist. Almenningur verður að hafa traust til að móta eigin skoðanir. Grundvallarforsenda þess er hin akreinin á vegi tjáningarfrelsisins, þ.e. rétturinn til heyra í öðrum.“

Ætla má af þessum orðum að Helgi Hrafn hafi gott af að kynna sér það sem Robert Fisk hefur til þessara mála að leggja. Efni þessarar síðu var ekki sett á lénið .is til að uppfræða Íslendinga eða almenning heldur til að réttlæta stríð og kveikja áhuga væntanlegra stríðsmanna.