19.10.2014 18:00

Sunnudagur 19. 10. 14

Daginn eftir glæsilegan sigur Íslendinga á Hollendingum í knattspyrnu flutti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, íslenska liðinu heillaóskir – upp úr eins manns hljóði á fundi með evrópskum fjárfestum og kaupsýslumönnum í Moskvu.

Utanríkisráðherrann flutti þriðjudaginn 14. október ræðu hjá Samtökum evrópskra fyrirtækja (Association of European Businesses) í Moskvu. Ræddi hann þar um viðskiptaþvinganir og áhrif þeirra og svaraði síðan fyrirspurnum. Síðasta spurningin til ráðherrans á fundinum snerist um hina svonefndu Norðurvídd, hvort nota mætti hana til að bæta samskipti Rússa við ESB.

Svar utanríkisráðherrans má finna hér á vefsíðu rússneska utanríkisráðuneytisins. Það birtist hér í lauslegri þýðingu:

„Norðurvíddin sem er gott dæmi á sína sögu. Áður en hún varð að góðri einingu var erfitt að setja henni mörk. Norðurvíddin varð til sem ESB-verkefni fyrir norræn lönd utan ESB – Rússland, Noreg og Ísland. (Og ég vil óska knattspyrnuliði Íslendinga til hamingju með frábæran leik þess.) Öll ríkin þrjú lýstu vilja til að vinna saman innan ramma hugmyndarinnar en vildu að hún fengi sameiginlegt efnislegt inntak. Þau vildu ekki fá sérgreindar tilskipanir frá ESB. Við úrlausn málsins gegndi Tarja Halonen Finnlandsforseti lykilhlutverki en henni var Norðurvíddin kappsmál. Viðræður hófust, skipst var á textum og inntakið samræmt sameiginlega af ESB, Rússlandi, Noregi og Íslandi. Þetta er helsta leyndarmálið að baki velgengni Norðurvíddarinnar. Ólíkt því sem á við um stefnu ESB á Svartahafi og Eystrasalti vinna menn saman að þessu verkefni í almennt góðri sátt um efni þess. Um þessar mundir vinnur ESB að mótun stefnu um norðurskautið, Mið-Asíu og Austursamstarf. ESB mótar stefnuna eitt varðandi þetta allt og hún er síðan lögð fyrir hugsanlega samstarfsaðila. Þessi aðferð er dáilítið hrokafull og ekki mjög opin. Ég held að vel færi á því að koma fram við ESB-samstarfsaðila sem jafningja innan ramma svæðisbundins samstarfs.“

Að Sergei Lavrov hugsaði til leiks Íslands og Hollands á Laugardalsvellinum mánudaginn 13. október á þessum fundi sýnir hve mikla athygli sigur íslenska liðsins vakti auk þess sem ráðherrann var kannski enn miður sín yfir að Rússa gerðu 1:1 jafntefli gegn Moldóvum sunnudaginn 12. október og vildi minna fundarmenn á að fleiri smáþjóðir en Moldóvar gætu boðið sér stærri þjóðum byrginn á knattspyrnuvellinum.

Íslendingur á ferðalagi um Moskvu sótti þennan fund af tilviljun, þótti honum merkilegt að heyra orðin um Ísland falla og sagði mér frá þeim – allt má síðan finna í netheimum!