1.10.2014 19:45

Miðvikudagur 01. 10. 14

Í dag ræddi ég við Ólaf H. Johnson, skólastjóra og stofnanda Hraðbrautar, í þætti mínum á ÍNN. Að stofna Hraðbraut, tveggja ára nám til stúdentsprófs, var merkilegt framtak á sínum tíma. Vinstrimenn, andstæðir einkarekstri skóla, höfðu alltaf horn í síðu skólans og í tíð Katrínar Jakobsdóttur sem menntamálaráðherra var látið til skarar skríða gegn skólanum og Ólafi á dapurlegan hátt. Hann hefur nú kært Katrínu vegna leka úr ráðuneytinu til DV . Lögregla rannsakar málið. Samtal okkar Ólafs verður fyrst sýnt kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Nú er ÍNN-samtal mitt við Anítu Margréti Aradóttur frá fyrri viku komið inn á netið og má sjá það hér. Hin 1.000 km kappreið hennar um sléttur Mongólíu var mikil þrekraun eins og hún lýsir í samtali okkar.

Í gær fór ég í pósthús. Ég hafði fengið spjald inn um lúguna um að ég ætti þar sendingu. Það reyndist rétt, hvítt millistórt umslag beið mín. Á það hafði verið límdur áberandi gulur miði með rauðri áletrun: Burðargjald á að greiðast af viðtakanda.

Afgreiðslustúlkan lagði umslagið á vigt og sagði: Burðargjaldið undir þetta bréf er 185 kr. – þú sérð að þetta hefði verið borið út til þín, það kemst í gegnum bréfalúgu.

Ég játti því og bjó mig undir að greiða upphæðina með stöðumælakrónum en þá sagði stúlkan: Nei, þú verður að greiða meira. Úr því að burðargjaldið lendir á þér sem viðtakanda þarftu að greiða fyrir þetta sem pakka, enda kemur þú hingað til að sækja sendinguna – þetta kostar þig 1.196 kr.

Ég innti greiðsluna undrandi af hendi. Síðan minntist ég þess að Pósturinn hefði kvartað undan minnkandi tekjum og taldi víst að sá sem sendi mér bréfið hefði gert það á þennan hátt í því skyni að bæta fjárhag Póstsins.

Sendandinn sagði mér hins vegar í tölvubréfi að hann hefði bara gleymt að setja frímerki á umslagið  og baðst innilega afsökunar á athugunarleysi sínu, hann myndi greiða útlagðan kostnað minn. Ég þakkaði honum hugulsemina en styrkurinn til Póstsins kæmi frá mér enda hefði ég verið kallaður á vettvang til að inna hann af hendi.