6.10.2014 21:10

Mánudagur 06. 10. 14

Fyrir nokkrum vikum ræddi ég við Brynjar Níelsson alþingismann í þætti mínum á ÍNN. Ég spurði hann meðal annars um störf undirnefndar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins sem fjallar um erindi sem Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur sendi nefndinni með ósk um athugun á stjórnarháttum í tíð Steingríms J. Sigfússonar sem fjármálaráðherra og samskiptum við kröfuhafa bankanna eftir hrun þeirra fyrir réttum sex árum.

Brynjar sagðist stefna að því að skila stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni skýrslu fyrir lok september. Engar fréttir hafa birst um það en nú þegar þing kemur saman að nýju að lokinni kjördæmaviku heyrist ef til vill eitthvað um málið.

Hér er um stórmál að ræða. Svo virðist sem skömmu eftir að Steingrímur J. varð fjármálaráðherra hafi hann lagt á ráðin um að farið yrði á svig við neyðarlögin sem sett voru fyrir sex árum til að vernda almenning gegn skuldbindingum vegna falls bankanna.

Þegar atburðanna í byrjun október 2008 er minnst skiptir mestu að beina athygli að viðbrögðum við hættunni þegar hún varð. Neyðarlögin eru augljóst dæmi um rétta ákvörðun og einnig samþykkt laganna um sérstakan saksóknara. Þessir gjörningar hafa reynst happadrjúgir.

Óhjákvæmilegt var að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og setja gjaldeyrishöft. Afskipti sjóðsins hafa ekki alltaf reynst heilladrjúg. Gjaldeyrishöftin áttu að vera í 10 mánuði en eru enn í gildi og enginn veit enn hvernig á að losna við þau.

Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifa ég umsögn um bókina Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann á DV, og vek máls á þeirri miklu brotalöm í bók hans að hann minnist ekki einu orði á EES-samninginn og gildistöku hans árið 1994 þegar hann lýsir stefnubreytingunni við lagasetningu frá árinu 1995. Að blaðamaðurinn skuli líta framhjá áhrifum EES-samningsins gerir bók hans næsta marklitla.