21.10.2014 18:30

Þriðjudagur 21. 10. 14

Ramakveinið sem heyrist þegar minnst er á vopnabúnað lögreglunnar er almennt viðbúnað til að tryggja öryggis landsmanna er með nokkrum ólíkindum. Látið er eins og einhver nýlunda felist í því að íslenska lögreglan hafi aðgang að skotvopnum. Svo er auðvitað ekki eins og sagan segir þeim sem vilja kynna sér hana.

Um langt árabil hafði lögreglan til dæmis aðstöðu til æfinga í húsi úti á Seltjarnarnesi þar sem nú er hús golfklúbbsins á nesinu. Á stríðsárunum var efnt til vopnaðra æfinga lögreglumanna á Laugarvatni undir stjórn Agnars Kofoed-Hansens lögreglustjóra.

Fyrir um áratug var ákveðið að breyta skipulagi sérsveitar lögreglunnar til að tryggja að liðsmenn hennar yrðu ávallt til taks með vopn sín á höfuborgarsvæðinu og á Akureyri. Þetta var ekki síst gert til að tryggja öryggi hins almenna lögreglumanns og auka svigrúm hans til að takast á við erfið og hættuleg viðfangsefni. Öryggisleysi lögreglumanna minnkar öryggi hins almenna borgara.

Jón H. Bjartmarz vitnar á mbl.is í dag í skýrslur um stöðu lögreglunnar frá 2012, í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar, um að öll embætti lögreglunnar hafi skammbyssur til umráða, nokkur þeirra rifla og haglabyssur. Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hafi haft 28 skamm­byss­ur til umráða á ár­inu 2012 og fimm hagla­byss­ur. Lög­regl­an á Suður­nesj­um hafi einnig haft yfir sjálf­virk­um vopn­um að ráða.

Í illa unnum fréttum og upphrópunum á alþingi og vefsíðum er látið eins og vopn verði látin í alla lögreglubíla. Þetta er ekki rétt. Vopn verða áfram geymd í lögreglustöðvum. Jón H. Bjartmarz segir að ein­stak­ir lög­reglu­stjór­ar  í stórum umdæmum á lands­byggðinni hafi á undan­förn­um árum tekið sjálf­stæða ákvörðun um að hafa vopn í bíl­um. Til skoðunar sé hjá um­rædd­um lög­reglu­stjór­um hvort þeir setji MP5 byss­ur í bíl­ana til viðbót­ar við skamm­byss­ur. Þar sé um að ræða einstaka bíla við sérstakar aðstæður.

Þegar rykið fellur til jarðar núna kemur í ljós að um það er að ræða hvort vopn lögreglunnar falli að eðlilegum nútímakröfum eða ekki.

Þegar varðskipið Óðinn kom hingað nýsmíðað til landsins árið 1960 var um borð í því fallbyssa með þessari áletrun: „Artillerimaterielværkstæderne Köbenhavn 1896“. Engum datt í hug að setja slíkt vopn um borð í Þór árið 2011. Fallbyssan í Þór er af gerðinni Bofors 40 MM L60 MK 3, sömu tegundar og fallbyssan um borð í Ægi.

Upphrópanir einstakra álitsgjafa og þingmanna í dag sannar aðeins enn hve frumstæðar umræður þessir menn telja sér sæma að stunda um öryggismál þjóðarinnar. Er tilvijun að þetta upphlaup eigi upptök í DV?