10.10.2014 19:10

Föstudagur 10. 10. 14

Tveir nýlegir þættir mínir á ÍNN komu inn á netið í dag.

Í fyrsta lagi þáttur frá 1. október þar sem ég ræði við Ólaf H. Johnson, skólastjóra og stofnanda Hraðbrautar, og má sjá hann hér.

Í öðru lagi þáttur frá 8. október þar sem ég ræði við Margeir Pétursson kaupsýslumann um stöðu mála í Úkraínu og má sjá hann hér.

Þetta er skrifað í Fljótshlíðinni og liggur dularfull móða yfir öllu. Vegna frétta má ætla að hér sé um eiturgufur frá gosinu í Holuhrauni að ræða. Sólin er eins og rauður vígahnöttur í vestri en rétt má greina í Eyjafjallajökul í austri.

Næsti staður þar sem umhverfisstofnun heldur úti mæli til að fylgjast með loftmengun er í Þjórsárdal og í fréttum ríkisútvarpsins klukkan 18.00 sagði að mikil brennisteinsmengun hefði mælst þar síðdegis í dag. Í Þjórsárdal mældist styrkur brennisteinstvíildis nær 2.500. Mælist brennisteinsmengun yfir 2.000, er fólk hvatt til að halda sig innandyra. 

Af þessu dreg ég þá ályktun að mér sé fyrir bestu að sitja inni en þegar ég skoða þetta nánar á vefsíðu umhverfisstofnunar sést að hámarkið var um stuttan tíma um klukkan 16.00 en nú eru skilyrði sögð góð í Þjórsárdal. Frá 12.00 til rúmlega 17.00 áttu viðkvæmir að fara varlega.

Veðurstofan spáir ákveðnari norðan- og norðaustanátt á morgun. Gasmengunar gæti orðið vart á mestöllu Suðurlandi, frá höfuðborgarsvæðinu og austur að Höfn í Hornafirði.

Því má velta fyrir sér hvort viðvaranir um hættuna af brennisteinsmenguninni séu nógu markvissar. Er það aðeins í stuttan tíma á dag best er að sitja inni? Hvað með áhrifin á skepnur? Eða rafeindatæki? Tölvur og tölvuvædda bíla?