28.10.2014 18:50

Þriðjudagur  28. 10. 14

Nýtt starfsheiti er kynnt í fréttum ríkisútvarpsins um þessar mundir það er mannréttindalögfræðingur. Líklega finnst fréttamönnum að meiri þungi fylgi orðum lögfræðingsins þegar hann er kynntur á þennan hátt og gagnrýnir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu fyrir að hafa ekki staðið rétt að birtingu skýrslu eftir Geir Jón Þórisson, fyrrv. yfirlögregluþjón, um mótmæli á árunum 2008 til 2011.

Vissulega er klaufalegt að þannig sé búið um hnúta við birtingu skýrslunnar að unnt sé að lesa nöfn fólks sem skyldu fara leynt. Hvort strika átti yfir sum nöfn eða öll er mér ekki ljóst. Lögregla beindi því hins vegar til fjölmiðla þegar hún afsakaði mistökin að þeir gættu nafnleyndar í frásögnum sínum.

Ekki hafa allir orðið við tilmælunum um nafnleynd eins og sjá má af þessari frásögn sem birtist á Eyjunni í dag, 28. október. Ég hef oftar en einu sinni vakið máls á því hér á síðunni að Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, hafi orðið sér til skammar með framkomu sinni þegar árás var gerð á Alþingishúsið. Réttmæti þeirrar skoðunar er staðfest í skýrslu Geirs Jóns.

Í umræðunum um byssueign landhelgisgæslunnar verður sumum fréttamönnum tíðrætt um þjálfun þeirra sem með þau eiga að fara. Umræðurnar hafa leitt í ljós að ekki væri vanþörf á að þjálfa fjölmiðlamenn í að ræða mál af þessum toga.

Í leiðara sem Fanney Birna Jónsdóttir ritaði um byssumálið í Fréttablaðið mánudaginn 27. október sagði meðal annars:

„Hver tók eiginlega þessa ákvörðun?  Ef það er rétt að hún hafi verið tekin án aðkomu ráðherra þá vakna upp áleitnar spurningar um hvort undirstofnunum dómsmálaráðuneytisins sé virkilega í sjálfsvald sett að kaupa til landsins það magn af vopnum sem því [svo!] hentar án nokkurrar stefnumarkandi aðkomu ráðherra eða Alþingis. Hversu langt nær sú heimild? Getur gæslan keypt hingað árásarþyrlu án umræðu í þinginu? Getur lögreglan komið sér upp brynvörðum skriðdrekum með þeim innihaldslausu rökum að það sé ekkert mál af því búnaðurinn fékkst gefins einhvers staðar frá? Hvar endar þetta?“

Já, það er vissulega ástæða til að spyrja: Hvar endar þessi fjölmiðlafarsi? Veit leiðarahöfundurinn ekkert um allar umræðurnar sem fram hafa farið á alþingi um kaup eða leigu á þyrlum? Veit hann ekki að í janúar 2009 var tekin ákvörðun af dómsmálaráðherra um að hingað kæmu ekki brynvarðar bifreiðar frá Danmörku? Löggæslumenn eru þjálfaðir í meðferð skotvopna, fjölmiðlamenn þyrfti að þjálfa til að ræða um þau.