26.10.2014 21:40

Sunnudagur 26. 10. 14

Þættir Egils Helgasonar, Vesturfarar, eru vel heppnað og tímabært sjónvarpsefni. Tíundi og síðasti þátturinn var sýndur í kvöld. Egill var staddur á vesturströndinni í Vancouver og Victoriu-eyju.

Fróðlegt var að heyra hve margir eru fróðir um landnema sem fyrstir Íslendinga settust að á hinum ólíku stöðum sem Egill heimsótti. Þá er glæsilegt og gleðilegt að sjá hve mikil rækt er lögð við margt og marga sem tengjast sögu Íslendinga á þessum slóðum.

Í júní á þessu ári voru rétt 50 ár liðin frá því að ég fór í fyrstu ferð mína á þessar slóðir. Var það opinber ferð foreldra minna um Íslendingabyggðirnar, á sömu staði og Egill heimsótti. Þá var víða öðru vísi umhorfs og nokkur ótti um að ekki tækist að varðveita það sem íslenskt var á þessum slóðum. Þættir Egils sýna að íslenski arfurinn mun ekki gleymast og meira er gert fyrir hann núna en líklega nokkru sinni fyrr.