24.10.2014 20:50

Föstudagur 24. 10. 14

Þegar rætt er um byssurnar sem embætti ríkislögreglustjóra hefur verið boðið fyrir milligöngu landhelgisgæslunnar gagnvart norska hernum ber að hafa í huga að frá því að varnarlið Bandaríkjamanna hvarf af Keflavíkurflugvelli árið 2006 hefur landhelgisgæslan orðið æ umsvifameiri þar án þess að sinna hernaðarlegum verkefnum. Hefur þessi nýja vídd í starfsemi gæslunnar þróast undir handarjaðri tveggja ráðuneyta, utanríkisráðuneytisins, tengiliðar stjórnarráðsins gagnvart hernaðaryfirvöldum annarra ríkja og NATO, og innanríkisráðuneytisins sem ber stjórnsýslulega ábyrgð á starfsemi gæslunnar.

Hinn 3. apríl 2014 efndi Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, til fundar þar sem gerð var grein fyrir því að Landhelgisgæsla Íslands hefur frá 1. janúar 2011 annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst annars vegar í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa Atlantshafsbandalagsins (NATO), rekstri öryggissvæða- og  mannvirkja og samskiptum við stofnanir NATO, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hins vegar samskiptum við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar annast rekstur íslenska loftvarnakerfisins sem er hluti af samþættu loftvarnakerfi NATO og mannvirkja Atlantshafsbandalagsins, þar með ratsjár- og fjarskiptastöðva hérlendis. Sá rekstur er eitt veigamesta framlag Íslands til sameiginlegra varna ríkja NATO.

Embætti ríkislögreglustjóra kemur fram gagnvart lögregluyfirvöldum annarra ríkja og alþjóðlegum lögregluyfirvöldum eins og Interpol og Europol undir forsjá innanríkisráðuneytisins.

Á sínum tíma ritaði ég undir samstarfssamning landhelgisgæslunnar og danska flotans og kom Sören Gade, þáverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, hingað til lands af því tilefni.+

Ekkert af þessu hefur farið leynt. Að landhelgisgæslan annist umsýslu vopna inna ramma þessa verkefnis er eðlilegur þáttur í framkvæmd þess. Nú liggur fyrir að vopn frá Norðmönnum eru í vörslu gæslunnar og ranglega hefur verið skýrt frá afhendingu þeirra til ríkislögreglustjóra.

DV er upphafsfjölmiðill þessa ranga fréttaflutnings og á ríkisútvarpinu eru sporgöngumenn auk þingmanna stjórnarandstöðunnar með Pírata í broddi fylkingar, trúir nafni sínu vilja þeir löggæslu sem minnsta. Í dag gekk síðan Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og baðst undan því að borgarbúar nytu verndar nýrra vopna tæki lögreglan þau í notkun!

ps. vegns tæknilegra mistaka rataði þetta nafn þingmanns VG Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir  inn á síðuna og er hún beðin velvirðingar á því.