9.10.2014 19:30

Fimmtudagur 09. 10. 14

Fjölmenni var síðdegis í dag í útgáfuteiti sem Almenna bókafélagið efndi til í Eymundsson í Kringlunni í tilefni af útgáfu bókar Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara, Í krafti sannfæringar. Í bókinni kemur meðal annars fram að Jón Steinar Gunnlaugsson er höfundur Einnota bréfsins svonefnda sem kom við sögu í Baugsmálinu. Hann segir í bókinni að hann hafi sem hæstaréttardómari, en vanhæfur í málinu, fylgst með framvindu mála tengd Baugi og dómum Hæstaréttar. Hlutlaus lagaframkvæmd hafi ekki ráðið ferðinni. Enginn gagnrýndi samt dómana.

Varð þetta tilefni þess að Jón Steinar skrifaði bréfið sem meðal annars kemur við sögu í bók minniRosabaugur yfir Íslandi þar sem ég rek Baugsmálið frá mínum sjónarhóli án þess að vita fyrr en nú í tilefni útkomu bókar Jóns Steinars að hann var höfundur bréfsins.

Ádeila verjenda í Baugsmálinu gekk mjög út á það að ég sem dómsmálaráðherra væri með puttana í málinu og til dæmis voru öll afskipti sem verjendur töldu að dómsmálaráðuneytið hefði af málinu sögð til þess fallin að eyðileggja málatilbúnað ákæruvaldsins í því. Ragnar H. Hall hrl. var meðal þeirra lögfræðinga sem lögðu verjendum í Baugsmálinu lið. Árið 2010 gagnrýndi hann harðlega að Eva Joly veitti sérstökum saksóknara ráð og kallaði hana „yfirsaksóknara“ og sagðist hafa ritað forsætis-, dómsmála- og fjármálaráðherra bréf þar sem hann krefðist meðal annars afrita af öllum samningum við Joly um samvinnu hennar við íslensk stjórnvöld.

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því Ragnar H. Hall og Helgi Sigurðsson hrl. hafi fundað með Ragnhildi Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu, og tveimur skrifstofustjórum ráðuneytisins af því að lögmennirnir teldu að við rannsóknir á umboðssvikum í efnahagsbrotamálum hefði sérstakur saksóknari vikið frá hefðbundnum sjónarmiðum um skýrleika refsiheimilda. Má skilja fréttina á þann veg að kvörtunum lögmannanna hefði verið vísað til réttarfarsnefndar að ósk ráðherra.

Ástæða er til að velta fyrir sér í tilefni þessarar fréttar hvort dómsmálaráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) og ráðuneytismenn telji sér fært að svipta saksóknara sjálfstæði sínu vegna kvartana lögmanna.  Þá má spyrja: Hvað varð um afstöðuna sem verjendurnir í Baugsmálinu höfðu? Telja hæstaréttarlögmenn í raun og veru að dómsmálaráðherra grípi eða eigi að grípa fram fyrir hendur saksóknara?