Sunnudagur 05. 10. 14
Ríkisútvarpið stendur ekki undir eigin yfirbyggingu, það hefur einfaldlega reist sér hurðarás um öxl.
Vera Illugadóttir tilkynnti hlustendum Leðurblökunnar í dag að þáttur hennar yrði ekki lengur á dagskrá rásar 1. Enn ein hreinsunin í anda aðfararinnar að síðasta lagi fyrir fréttir hefur verið kynnt í ríkisútvarpinu. Leðurblakan víkur líklega fyrir þættinum sem dagskrárstjórinn lofaði þegar hann sat undir gagnrýni fyrir aðförina að morgunbæninni og orði kvöldsins. Helst má skilja að í boði verði afhelgaður þáttur um heimspeki og trúarbrögð.
Nú hefur rás 2 verið töluð niður sem verðlaus. Hún sé lítið annað en einn maður og nokkrir hljómdiskar. Sérkenni hennar við sölu auglýsinga hafa verið afmáð með flutningi leikinna auglýsinga á undan öllum fréttum ríkisútvarpsins. Þá hafa morgunþættir rásanna tveggja verið sameinaðir. Allt bendir til að rás 2 verði einfaldlega felld inn í rás 1.
Þátturinn Orð af orði er enn fluttur á rás 1 síðdegis á sunnudögum. Hann snýst um íslenskt mál. Í dag tóku stjórnendur þáttarins sér fyrir hendur að kenna Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, mannasiði vegna orðalags í netpistli hans til varnar Sjálfstæðisflokknum. Hann hefði vegið þar of nærri tilfinningum fólks og ætti að sýna syrgjendum meiri nærgætni.
Miðað við greiningu þáttarstjórnanda sem íslenskufræðings væri forvitnilegt ef stjórnmálafræðingur eða fjölmiðlafræðingur tæki að sér að greina efnistökin til að upplýsa hlustendur um hvort þau hafi verið innan þeirra marka sem eðlileg séu miðað við umgjörð og tilgang þáttar um íslenskt mál.
Segja má að það hefði staðið stjórnanda þessa þáttar nær að fjalla til dæmis um þá orðnotkun í fréttum ríkisútvarpsins að tala um viðræðuslit við ESB í fréttum laugardaginn 4. október en ekki afturköllun aðildarumsóknar. Viðræðum milli fulltrúa ESB hefur þegar verið slitið. Hér má lesa um þennan fréttaflutning.