30.10.2014 19:40

Fimmtudagur 30. 10. 14

Miðaldastofa boðaði í dag til fyrirlestrar um leitina að klaustrunum og flutti dr. Steinunn J. Kristjánsdóttir prófessor hann. Eftir að hún gróf upp Skriðuklaustur í Fljótsdal hefur hún fengið styrk til að leita að hinum klaustrunum 13. Leitin hófst í sumar og skýrði Steinunn frá því sem fundist hefur. Hún telur að vitað sé um rústir nunnuklaustursins á Reynistað (1295-1551). Þrátt fyrir fjölda ferða að Helgafelli (1172-1550) hafa hún og samstarfsmenn hennar ekki fundið neinar minjar um klaustur þar.

Lengst var klaustur á Þingeyrum í Húnaþingi, 1106 til 1551. Í máli Steinunnar kom fram að henni er bannað að stunda þar rannsóknir vegna friðlýsinga á svonefndum dómhring í nágrenni núverandi bæjarstæðis á Þingeyrum og einnig á Trumbsvölum sem standa í nokkurri fjarlægð norðvestur af bæjarhúsunum.

Undir eftirliti fulltrúa Minjastofnunar fékk hún þó leyfi til að grafa tvo rannsóknarskurði á Trumbsvölum og sagði hún að þar hefðu fundist minjar sem gætu bent til þess að klaustrið hefði staðið þar.

Tvennt vekur sérstaka undrun eftir að hafa hlýtt á hið fróðlega erindi Steinunnar:

  1. Að hvergi skuli hafa fundist nein rituð samtímaheimild um húsakipan og skipulag klausturstaða: Hvort klaustrið hafi staðið sér og híbýli klausturbónda á öðrum stað, hvort tvær kirkjur hafi verið á staðnum o. s. frv. Slík skjöl hafa örugglega verið til en skemmdaræðið við siðaskiptin orðið til þess að allt var eyðilagt sem haldið gat lífi í minningu um klaustrin eða stuðlað að endurreisn þeirra eftir að vargar fóru um þau höndum. Fréttir úr samtímanum af framgöngu IS-manna í Sýrlandi og Írak minna á tryllinginn við uppgjör trúarlegs eðlis.
  2. Að Minjastofnun skuli banna fornleifarannsókn á Þingeyrum með vísan til friðlýsingar þótt í reglum sé heimild til undanþágu. Að heimildin nái ekki til vísindalegrar rannsóknar á borð við þessa er óskiljanlegt. Að túlka friðlýsingu á þann veg að ekki sé unnt að rannsaka hvort hún eigi við rök að styðjast og þá við hvaða rök, stangast á við það sem skynsamlegt getur talist. Varla hefur löggjafinn litið svo að banna skyldi rannsóknir í þágu friðlýsingarinnar?

Fyrirlestrarsalur 101 í Odda var þéttskipaður þegar Steinunn flutti erindi sitt og komust líklega færri að en vildu.