3.7.2012 22:41

Þriðjudagur 03. 07. 12

Í dag hitti ég nokkra forráðamenn ungra sjálfstæðismanna. Ég spurði hvort þeir hefðu efnt til kosningavöku í Valhöll fyrir Ólaf Ragnar Grímsson eins og fram hefði komið í ríkisútvarpinu og vakið nokkra athygli. Þeir sögðu það af og frá. Menn hefðu komið saman í öðrum tilgangi í Valhöll en síðan fylgst með úrslitum kosninganna eins og aðrir hefðu víða gert. Það hefði verið sagt við starfsmann ríkisútvarpsins að til hófsins í Valhöll væri ekki stofnað til að fagna sigri Ólafs Ragnars þótt í hópnum væru kjósendur hans.

Óskiljanlegt er að ríkisútvarpið hafi  kynnt þessa samkomu á þann hátt sem það gerði um kosninganóttina og enn óskiljanlegra að hún yrði Eiríki Guðmundssyni tilefni hins dæmalausa pistils sem hann flutti í upphafi þáttarins Víðsjár  mánudaginn 2. júlí. Sannaði sá samsetningur enn einu sinni á hvern hátt Eiríkur misnotar þáttinn og aðstöðu sína sem einn stjórnenda hans til að flytja áróður gegn þeim sem hann hefur ekki í hávegum. Hefði Eiríkur birt texta sinn á prenti gætu þeir sem urðu fyrir barðinu á honum borið hönd fyrir höfuð sér á sama stað. Að hann flutti hann í Víðsjá gerir öðrum en þeim sem hann eða aðrir stjórnendur þáttarins bjóða í hann ókleift að svara á sama stað.

Ríkisútvarpið hefur farið illa út úr forsetakosningunum, líklega verst opinberra stofnana. Ef forráðamenn stofnunarinnar telja að hún rétti hlut sinn á einhvern hátt með því að mikla fyrir sér  að sjálfstæðismenn hafi kosið Ólaf Ragnar er það mikill misskilningur og breytir heldur engu um úrslit kosninganna.

Í dag sannaðist að allt tal íslenskra ráðherra um að engin tengsl séu á milli makríldeilunnar og ESB-aðildarviðræðnanna er úr lausu lofti gripið. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, kom í fyrsta sinn í embættisnafni til Íslands og sagði á diplómatískan hátt að fyrst yrði að leysa deiluna um makríl á þann veg sem ESB líkaði síðan mætti huga að sjávarútvegsviðræðum við Íslendinga, Steingrímur J. Sigfússon ber ábyrgð á varðstöðunni um makríl gagnvart ESB. Varðstaða hans í Icesave-málinu brást. Skyldi hann standa sig betur í makrílnum? Þar eru tugir milljarða króna í húfi eins og í Icesave.