22.7.2012 21:50

Sunnudagur 22. 07. 12

Þess er minnst í dag er eitt ár frá voðaverki Breiviks í Útey. Þáttur í sjónvarpinu í kvöld sýndi hve djúpstæð áhrif hörmungarnar hafa haft á norsku þjóðarsálina og raunar langt úr fyrir Noreg. Frásagnir af Breivik-málaferlunum hafa fengið mikið rými í öllum helstu fjölmiðlum heims og hvarvetna eru menn þrumu lostnir yfir að slíkur atburður skuli hafa gerst í hinum friðsama Noregi, fyrirmyndarríki.

Fleiri fréttir berast frá Noregi og eru tvær birtar á Evrópuvaktinni í dag: önnur um að norska krónan sé hærri gagnvart evrunni en hún hefur verið í 10 ár; hin um að 75% Norðmanna eru andvígir ESB-aðild.

Fylgismenn ESB-aðildar í Noregi segja að hina miklu andstöðu megi rekja til efnahagsástandsins innan ESB. Fréttir af því eru svartari nú um helgina en áður. Allt er í uppnámi vegna Grikklands og vandræði Spánverja virðast rétt að byrja. Ég ræði þetta í pistli sem ég skrifaði hér á síðuna í dag.

Norska krónan styrkist vegna þess að menn leita skjóls fyrir peninga sína utan evru-svæðisins, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Í viðtali mínu við Erlend Magnússon á ÍNN sl. miðvikudag sagði hann að nú væri ef til vill rétti tíminn til að aflétta gjaldeyrishöftunum óttuðust menn að afnám þeirra leiddi til mikils fjárstreymis úr landi. Nú er staðan sem sé þannig að margir vilja líklega frekar eiga íslenskar krónur en evrur.

Afnám gjaldeyrishaftanna ræðst af pólitískri ákvörðun sem ríkisstjórnin vill ekki taka. Steingrímur J. vill hafa höftin til að ráðskast með fjármuni fyrirtækja og almennings. Jóhanna vill halda í þau í þeim tilgangi að halda í þann áróður að aðeins sé unnt að afnema þau með aðild að ESB. Bæði láta þau stjórnast af annarlegum sjónarmiðum sem ekki styðjast við nein skynsamleg rök.