22.7.2012

Úrslitastund evru-samstarfs – brotið gegn ráðningarstefnu


Í viðtali við mig á ÍNN miðvikudaginn 18. júlí sem sjá má hér spáði Erlendur Magnússon framkvæmdastjóri, sem er nákunnugur evrópskum fjármálamörkuðum, að það syði að lokum endanlega upp úr á evru-svæðinu, smáskammtalækningar Angelu Merkel og félaga dygðu ekki til að leysa skuldavanda svæðisins eða einstakra þjóða á því.

Það liðu ekki nema fáeinir sólarhringar þar til við blasti betur en áður að Erlendur og aðrir sem segja að stóri hvellur evrunnar eigi eftir að verða hafa rétt fyrir sér. Annars vegar berja menn sér á brjóst og segja að evran lifi hins vegar að nóg sé komið af hjálparstarfi við Grikki. Þeir verði bæði að standa við loforð gagnvart lánveitendum sínum og á eigin fótum.

Ég þýddi viðtal nokkurra blaðamanna Le Monde í Frakklandi við Mario Draghi, forseta bankaráðs Seðlabanka Evrópu, og birti á Evrópuvaktinni laugardaginn 21. júlí. Hann segir að evran muni lifa, hvað annað, en Grikkir verði sjálfir að spjara sig. Leiðin til að bjarga evrunni sé að efla yfirþjóðlegar stofnanir í hennar þágu, færa vald frá þjóðþingum og ríkisstjórnum til stofnana á borð við Seðlabanka Evrópu. Þegar vakið er máls á því að hann hafi sem bankastjóri ekki neitt lýðræðislegt, lögmætt umboð til að ráðskast með hag almennings segist Draghi fara tæplega 10 sinnum á ári til fundar við ESB-þingmenn.

Hver lítur á ESB-þingmenn sem gæslumenn lýðræðislegra réttinda einstakra þjóða? Þar er sá hópur manna saman kominn sem mest vill efla völd ESB-stofnana og verður öskureiður ef ríkisstjórnir vilja hafa vald í eigin höndum til að stjórna umferð um eigin landamæri. Þetta sannaðist á dögunum þegar þeir settu danska dómsmálaráðherrann í skammarkrókinn vegna ákvarðana ráðherraráðsfundar sem hann stjórnaði um Schengen-málefni.

Augljóst er að ráðamenn Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fengið nóg af samskiptunum við Grikki. Þegar lesið er milli línanna í því sem frá stofnunum kemur um þessa helgi er augljóst að forstöðumenn þeirra telja Grikki einfaldlega ekki standa við orð sín. Þeir reyni aðeins að hafa meira fé af lánveitendum með því að draga umsamdar aðgerðir á heimavelli á langinn.

Í dag, sunnudaginn 22. júlí þýddi ég leiðara úr Le Monde á Evrópuvaktina. Hann snýst um vanda Spánverja og lýsir ótta blaðsins við að Spánverjar verði einfaldlega látnir sigla sinn sjó. Ráðamenn í ESB-ríkjunum vilji ekki veita þeim aðstoðina sem þarf til að bjarga þeim og þeir séu ekki sjálfir færir um að gera það. Þetta er í sjálfu sér ógnvekjandi leiðari því að Spánn er fjórða stærsta hagkerfi evru-svæðinu. Því var kollsiglt með ódýru lánsfé til húsnæðismála og Le Monde  segir að skuldavandi margra heimila á Spáni sé óviðráðanlegur fyrir þá sem við hann búi.

Hér á landi láta ESB-aðildarsinnar úr hópi launþega, til dæmis Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, eða Guðmundu Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, eins og skuldavandi heimila sé óþekktur í evru-löndum. Þeir ættu að lesa leiðarann í Le Monde og kynna sér skuldavanda heimilanna á Spáni. Það er ekki aðeins einföldun heldur vísvitandi blekking þegar því er haldið fram að innan evru-svæðisins glími heimili ekki við skuldir sem eru í raun óviðráðanlegar þegar litið er til heimilistekna.

Sagt er að harkan sem sýnd er Grikkjum af hálfu ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eigi að hræða Spánverja og Ítali frá því að leita á náðir þessara stofnana. Spánverjar hafa þó gert það með því skilyrði að sæta ekki sömu kjörum og Grikkir enda sé „bara“ um endurfjármögnun spænskra banka að ræða.

Mismununin á Grikkjum og Spánverjum endurspeglar skiptinguna milli stórra og meðalstórra ríkja innan ESB, fyrir hina stóru eru gerðar undantekningar. Le Monde óttast samt að Spánverjar verði afskiptir – það skyldi þó ekki vera af því að Frakkar vita að annað stærsta evru-hagkerfið, hið franska, stendur á brauðfótum – þeir styrkjast ekki við efnahagsaðgerðir François Hollandes.

Því er spáð að fari fram sem horfir verði þjóðargjaldþrot í Grikklandi í september. Getur evru-ríki orðið gjaldþrota? Það kemur í ljós. Eitt er víst: um 30 mánaða stríð til bjargar Grikkjum hefur kostað skattgreiðendur annarra evru-ríkja hundruð milljarða evra án þess að sigur sé unninn. Allir sjá að ekki verður lengra haldið á sömu braut. Hin mikla uppgjörsstund á evru-svæðinu og innan ESB nálgast.

Ráðuneytisstjóri ráðinn með samkomulagi

Undrun og reiði er mikil vegna ákvörðunar Steingríms J. Sigfússonar um að ætla að ráða ráðuneytisstjóra hins nýja nýsköpunar- og atvinnuvegaráðuneytis með „samkomulagi“ eins og hann orðaði það í fréttum.  Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur sem starfað hefur sem aðstoðarmaður fleiri en eins ráðherra Samfylkingarinnar og þekkir nokkuð til innviða stjórnarráðsins gagnrýnir áformin um hið nýja, stóra ráðuneyti og ráðningu ráðuneytisstjórans harðlega í grein í Fréttablaðinu fimmtudaginn 19. júlí.

Kristrún minnir á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi sjálf  „markað þá nýju starfshætti sem reglu að valnefndir meti umsækjendur um starf ráðuneytisstjóra í kjölfar auglýsingar“.  Með þessu sé sjálfstæði ráðuneytisstjóra og stjórnsýslunnar í heild styrkt og tryggt að „pólitískir hagsmunir ráðherrans geti aldrei færst skör hærra við rekstur ráðuneytis og töku ákvarðana en vera ber“.

Ráðuneytisstjórinn sem Steingrímur J. ætlar að ráða með samkomulagi verður að sögn Kristrúnar ekki aðeins æðsti yfirmaður stjórnsýslu risaráðuneytis á íslenskan mælikvarða, ráðuneytis sem sé um leið fágætt á heimsvísu með því að „gjörvallt íslenska fjármálakerfið, bæði eftirlitsstofnanir þess og fjármálafyrirtækin“  skuli  heyra undir það og verði þessum málum skipað hliðsett almennum atvinnumálum. Slík skipan þyki hins vegar „hvarvetna óæskileg, jafnvel beinlínis háskaleg og engir sérfræðingar hafa mælt með því á Íslandi,“ segir Kristrún og bætir við: „Ekki frekar en hinni fáheyrðu ráðstöfun að fela atvinnuvegaráðuneyti einnig að hafa yfir Samkeppniseftirlitinu að segja. Engu að síður hafa ráðherrar því miður þegar tekið órökstudda geðþóttaákvörðun um að svona skuli skipanin vera og Alþingi staðfest það eftir flokksaga.“

Kristrún segir að „vinstristjórn rústabjörgunarinnar“ sé að færa „framtíðarábyrgð á fjármálakerfi landsins inn í ramma þjónustu stjórnsýslunnar við samtök atvinnurekenda“.  Þjónusta stjórnsýslunnar hafi verið og sé „lykilstarfsemi sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneyta frá öndverðu og nú bætist fjármálakerfið allt við“.  Nær hefði verið að skipa fjármálakerfinu  undir efnahagsráðuneyti eins og ríkisstjórnin  hafi sagt í stjórnarsáttmála 2009 að væri nauðsynlegur lærdómur af hruninu.

Í  lok greinar sinnar spyr Kristrún Heimisdóttir:

„Hverjir munu koma að þessum væntanlegu samningum um stöðu ráðuneytisstjóra? Til samninga um stöðu ráðuneytisstjóra er enginn nema ráðherrann sjálfur sem persónugerir þar með ríkið í sjálfum sér en kastar fyrir róða valnefndum og öðrum óháðum fulltrúum almannahagsmuna. Slík mistök drægju langan dilk á eftir sér.

Hvernig getur nokkur maður treyst því framvegis að ekki ráði persónusamningurinn við einstaklinginn á ráðherrastóli umfram allt annað? Að handabandið sé taumur? Finnst forsætisráðherra að við það skuli allir una?“

Sjónarmið Kristrúnar eru studd rökum sem ríkisstjórnin hefur flaggað sjálfri sér og stjórnsýslu sinni til ágætis en fjúka nú eins og lauf í vindi þegar Steingrímur J. sér tækifæri til að persónugera „ríkið í sjálfum sér“. Enn og aftur birtist hroki Steingríms J. segja þeir sem fylgst hafa með duttlungafullum stjórnarháttum formanns vinstri-grænna. Hann snýr ekki aðeins baki við stefnu eigin flokks í valdabrölti sínu heldur hrifsar til sín völd með því að sniðganga eða snúa út úr ákvæðum laga og sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Jóhanna verður endanlega marklaus

Hið einkennilega við grein Kristrúnar er að hún telur að Jóhanna Sigurðardóttir sjái eitthvað athugavert við þessa framgöngu. Jóhanna sem braut jafnréttislögin til að fá þann í embætti í forsætisráðuneytið sem henni hugnaðist og móðgaði síðan „nr. 5“ á þann veg að umsækjandinn fékk dæmdar þær miskabætur sem hann krafðist. Jóhönnu sem réð upplýsingastjóra ríkisstjórnarinnar án þess að auglýsa stöðuna af því að henni þótti svo miklu skipta að Jóhann Hauksson túlkaði málstað sinn.

Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd í desember 2009 til að gera tillögur um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands. Upphaflegur formaður nefndarinnar var Anna Kristín Ólafsdóttir sem neitað var um starf í forsætisráðuneytinu og fór loks í mál við Jóhönnu vegna brots hennar á jafnréttislögunum. Við afsögn Önnu Kristínar tók Arnar Þór Másson við formennsku í nefndinni en Jóhanna réð hann til starfa í forsætisráðuneytinu og braut þá jafnréttislögin. Í nefndinni sátu meðal annarra tveir kennarar við Háskóla Íslands: Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur sem hafa ekki legið á gagnrýni á stjórnsýsluna - þau þegja þó gjarnan þegar Jóhanna á í hlut þrátt fyrir lögbrot hennar. Nefndin skilaði skýrslu í desember 2010. Þar segir meðal annars:

 „Nefndin telur að setja skuli ákvæði um hæfnismatsnefnd eða ráðningarnefnd í lög þegar um er að ræða ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og forstöðumenn stofnana. Þá ætti í reglugerð að setja leiðbeinandi reglur fyrir störf þeirra þannig að ljóst sé að þær vinni eftir skýrum ramma.

Nefndin telur jafnframt að til að tryggja að ráðningar ráðuneytisstjóra og forstöðumanna ríkisstofnana verði minna umdeildar eigi ráðherra að bera ráðningu þeirra upp í ríkisstjórn til samþykktar.“

Af þessu er ljóst að ráðgjafar Jóhönnu Sigurðardóttur um stjórnsýslumál telja að ráðherrum beri að sýna sérstaka aðgæslu við skipan ráðuneytisstjóra. Ólíklegt er að nokkru sinni hafi verið á það minnst í nefndinni að ráðuneytisstjóri yrði ráðinn með „samkomulagi“ ráðherra við þrjá hugsanlega umsækjendur yrði staðan auglýst.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir kynnti niðurstöðu þessarar nefndar var sérsök áhersla lögð á að verklag við ráðningu æðstu embættismanna og annarra starfsmanna yrði bætt s.s. með hæfnisnefndum og samræmt til þess að tryggja sem best að fagleg sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi.

Úr því að Jóhanna Sigurðardóttir hefur fallist á kröfu Steingríms J. um að hann ráði án auglýsingar ráðuneytisstjóra hins nýja og viðamikla ráðuneytis er ljóst að allt tal Jóhönnu um umbætur í ráðningarmálum embættismanna ríkisins er að engu orðið.

Hrópandi þögn stjórnsýsluspekinganna í Háskóla Íslands vekur athygli. Ábyrgðin er hins vegar hjá stjórnmálamönnum. Spyrja má: Ætlar þingflokkur Samfylkingarinnar og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar að líða þessa framgöngu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar? Þessir aðilar halda á framtíð Samfylkingarinnar eftir að Jóhanna hrökklast frá völdum. Ætla þeir að sitja með ábyrgðina á nýjasta óhæfuverkinu innan stjórnarráðsins?