1.7.2012 23:40

Sunnudagur 01. 07. 12

Fór í dag í Skálholt og hlýddi á Skálholtskvartettinn flytja verk eftir Schübert og Haydn, Þegar ég ók til baka sá ég par með bakpoka biðja um far rétt sunnan við brúna yfir Iðu. Þar sem ég var einn á ferð stöðvaði ég og spurði hvert þau ætluðu, þau sögðust vera á leið til Hellu. Það var í leiðinni fyrir mig svo að ég bauð þeim far. Þau eru frá Tékklandi. Ég spurði ekki um skýringu á því hvernig þeim datt í hug að standa þarna til að fá far til Hellu, þau höfðu hins vegar heppnina með sér.

Hér má sjá viðtal mitt við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sýnt var á ÍNN 27. júní.

Á Evrópuvaktinni birtist í dag frétt af vefsíðu Le Monde um forsetakosningarnar hér á landi. Blaðið hefur sýnt þeim áhuga og birti fyrir helgi áberandi frétt um þær með stórri mynd af Þóru Arnórsdóttur. Í fréttinni segir meðal annars:

---

„Niðurstaða kosninganna er þó einstæð í landi þar sem venjan er að enginn bjóði sig fram gegn sitjandi forseta óski hann endurkjörs. Með því að tryggja sér um þriðjung atkvæða sýnir Þóra (á Íslandi er venjan að nota fornafnið) „breikkandi gjá sem myndast hefur í íslensku þjóðfélagi milli almennings og menntamannaelítunnar“ segir Rósa Erlingsdóttir, kennari í stjórnmálafræðum við háskóla í Reykjavík.“

---

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til forseta í fyrsta sinn 1996 stóðu fyrrverandi samstarfsmenn hans í Háskóla Íslands þétt að baki honum. Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, lagði sig í líma við eftir að Ólafur Ragnar flutti nýársávarp sitt 1. janúar 2012 að túlka orð hans á þann veg að hann hefði ekki aftekið að bjóða sig fram í fimmta sinn.

Í hinum tilvitnuðu orðum Rósu Erlingsdóttur hér að ofan felst hins vegar sú greining hennar að háskólamenn og aðrir sem gera tilkall til að vera í „menntamannaelítunni“ standi ekki lengur að baki Ólafi Ragnari. Hann höfði svo sterkt til alþýðunnar að bilið milli hennar og elítunnar breikki. Þetta er forvitnilegt viðhorf sem á ekki síður erindi til Íslendinga en lesenda Le Monde í Frakklandi sem almennt teljast til elítunnar þar. Eðlilegt er að spyrja hvenær hið nána samband Ólafs Ragnars við elítu menntamanna á Íslandi rofnaði og hvers vegna.